Mynd: SC200
Mynd: SC200

Hreint drykkjarvatn er því miður af skornum skammti í heiminum, þó við á Íslandi verðum ekki sérlega vör við það. Á mörgum stöðum þar sem miklir þurrkar ríkja er lítið um vatn og það litla sem er til staðar oft mjög skítugt. Nýlega birti vísindahópur við Washington University in St. Louis grein í vísindaritinu Advanced Materials þar sem einföldum hreinsunarbúnaði er líst.

Hreinsunarbúnaðurinn samanstendur af tvílaga himnu. Neðra lag himnunnar er, í stuttu máli, gert úr sellulósa og efra lagið er grafín-fylltur sellulósi. Neðra lag himnunnar er nokkurs konar svampur sem sogar upp vatn þegar himnan er látin liggja í því. Efra lagið gegnir svo því hlutverki að hleypa í gegnum sig hreinu vatni þegar það hitnar t.d. vegna tilkomi sólarljóss.

Eiginleikar himnunnar gera það að verkum að vatnið sem hleypt er í gegn er laust við óhreinindi og stærri saltagnir svo eitthvað sé nefnt. Vísindahópurinn gerir sér því vonir um að hægt verði að nota þessa tækni til að hreinsa vatn þar sem mikillar sólar nýtur við. Að auki vilja þeir bæta byggingu himnunnar og bæta í hana ákveðnum efnum sem stuðla að niðurbroti baktería sem gætu sloppið í gegnum himnuna eins og hún er núna.

Framleiðsla himnunnar er sérlega ódýr þar sem notast er við bakteríur sem geta byggt upp sellulósa. Með því að bæta grafíni í æti bakteríanna á ákveðnu vaxtaskeiði þeirra verður svo þessu tvílaga himna til. Vísindahópurinn segir auðvelt að stækka framleiðsluna á himnunum þannig að innan skamms tíma væri möguleiki að nýta þessar himnur sem hreinsunarbúnað. Þá væri áhugavert að sjá betrumbætur á himnunum til að tryggja að sem fæstar bakteríur komist í gegnum hana.