Mynd: 15stevenw8scihon6
Mynd: 15stevenw8scihon6

Eins og lesendur Hvatans hafa væntanlega lesið í fróðleiksmolunum eru stofnfrumur mjög sérstakar frumur sem eru mjög mikilvægar viðhaldi líkama okkar. Vísindamenn eru alltaf að finna betri og betri leiðir til að stjórna vefjasérhæfðum stofnfrumum sem getur leitt til stórkostlegra framfara í meðhöndlun sjúkdóma. Nýlega var birt grein í vísindatímaritinu Nature Biotechnology þar sem hópar við Brigham and Women’s Hospital og Harvard Stem Cell Institute lýsa rannsóknum sínum á stofnfumum í húð, en þeim var stýrt í vefjasérhæfingu nýrna.

Líffæri á borð við lifur og hjarta hafa nú þegar verið búin til á svipaðan hátt. Nýru hafa hins vegar reynst mun erfiðari meðhöndlunar en svo virðist sem smíði nýrna hafi loks borið árangur. Nýrun gegna mjög flóknu hlutverki í líkamanum en þau stjórna vatnsbúskap, sía blóðið og hafa áhrif á hormónaseytun. Nýrun sem urðu til við þessar tilraunir virðast virka eins og venjuleg nýru, hafa sömu frumugerðir og uppbyggingu.

Þessi smíði gerir vísindamönnum kleift að rannsaka nýrnasjúkdóma og áhrif lyfja eða annarra efna á nýrun. Með tíð og tíma gæti verið hægt að taka skrefið til fulls og nýta slík líffæri til líffæragjafa.