surgery

Á hverju einasta ári koma fram nýjar upplýsingar í vísindaheiminum sem breyta sýn okkar á umhverfið og lífið. Þó nú sér árið 2017 gengið í garð er þó langt í það að við vitum allt, það er gríðarlegt verk fyrir höndum áður en við t.d. skiljum allt sem viðkemur mannslíkamanum. Það sést kannski best á greinum eins og þeirri sem birt var í The Lancet í lok ársins 2016.

Í rannsókninni rökstyður írskur rannsóknarhópur af hverju sá partur líkama okkar sem kallast garnahengi eða mesentery ætti að flokkast sem líffæri. Hingað til hefur garnahengið ekki fengið þann titil að vera líffæri heldur er frekar litið á það sem margar flóknar og ótengdar einingar sem festa garnirnar við líkamann, eiginlega hengja garnirnar upp inní kviðarholinu.

Þegar garnahengið var skoðað til hlítar kom í ljós að ekki er um margar sjálfstæðar einingar að ræða heldur er þetta líffæri ein heild. Þessi heild er líka ekki eins flókin og áður virtist en hefur þó sitt eigið hlutverk sem rannsóknarhópurinn vinnur nú að, að skilgreina nánar.

Stundum er það sem þarf til að finna svörm við t.d. sjúkdómum, ný viðhorf. Nú þegar garnahengið er skilgreint sem líffæri en ekki bara tengi-einingar eykst skilningurinn á því hvernig það virkar og hvernig það á ekki að virka. Þetta er svo hægt að nýta til að meðhöndla sjúkdóma í kviðarholi.

Það má því segja að þó garnahengið hafi alltaf verið til staðar þá erum við öll, allt í einu með glænýtt líffæri í kviðarholinu. Það verður áhugavert að fá að vita hvað þetta nýtilkomna líffæri gerir.