pill-to-keep-you-feeling-young-from-one-of-the-worlds-top-ag

Nýtt lyf gæti brátt komið á markað sem gerir okkur kleift að lifa lengur en jafnframt lifa betur. Það má segja að lyfið haldi okkur ungum lengur.

Það eru rannsóknarhópar við The Scripps Research Institute (TSRI), Mayo Clinic og fleiri stofnanir sem hafa náð þessum merka árangri. Lyfið hefur verið þróað til að hamla sjúkdómum sem herja á okkur á efri árum. Tilraunir sem hafa verið gerðar á músum sýna að lyfið hægir á öldrunarferlinu þannig að þó lífaldur lengist þá verður líkaminn enn ungur. Grein um málið birtist í Aging Cell í opnum aðgangi þann 9. mars.

Þessi flokkur lyfja hefur hlotið skilgreininguna synolitic-lyf og binda rannsakendurnir vonir við að lyfin hafi áhrif á alla sjúkdóma sem teljast öldrunartengdir.

Lyfin beinast gegn frumum sem eru í öldrunarfasa. Öldrunarfasi er það sem kallast á ensku senesence og vísar til þess að frumurnar eru hættar að skipta sér, þær hafa m.a. ekki lengur litningaenda sem þarf til að geta klárað að umrita erfðaefnið og halda sér því í stöðugum fasa, án þess þó að fara í stýrðan frumudauða. Með því að skoða tjáningu gena í frumum í öldrunarfasa komst hópurinn að því að til að hindra að frumurnar fari í stýrðan frumudauða, eða sjálfsmorð, eru alls kyns lifunarkerfi virkjuð.

Þessar niðurstöður ollu því að hópurinn ákvað því að prófa krabbameinslyfið dasatinib og quercetin, sem virkar á ónæmiskerfið og dregur úr bólgusvörun m.a. Þegar lyfin voru prófuð í frumulínum virtist dasatinib sérhæft fyrir fitufrumur meðan quercetin réðst á innanþekjufrumur og stofnfrumur ónæmiskerfisins. Þegar mýs voru meðhöndlaðar með lyfjunum, í þeim tilgangi að drepa aldraðar frumur, þá leiddi meðferðin til aukinnar hreyfigetu og betri virkni hjarta og æðakerfisins, ásamt því að fleiri einkenni öldrunar minnkuðu.

Enn sem komið er hefur lyfið einungis verið prófað í músum en einnig í mannafrumulínum sem sýna ákveðnar vísbendingar um að lyfin geti dregið úr áhrifum öldrunar. Rannsóknir vantar þó ennþá á langtímaáhrif lyfjanna. Það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi rannsóknum, sem hópurinn vonast til að geta framkvæmt fljótlega.