Mynd: sfxeric/Flickr
Mynd: sfxeric/Flickr

Vísindamenn hafa þróað lyf sem gæti komið í stað morfíns og annarra ópíóíða og hefur þann kost að það er ekki ávanabindandi. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Neuropharmacology.

Um er að ræða afbrigði af endómorfíni sem er peptíð sem finnst í líkamanum og segir James Zadina, tauga- og lyfjafræðingur við Tulane University School of Medicine, og fyrsti höfundu greinarinnar, að “engin fordæmi séu fyrir því að peptíð skili svo öflugri verkjastillingu með svo litlum aukaverkunum”.

Lyfið hefur að svo stöddu aðeins verið prófað á rottum en þær prófanir hafa gefist vel og svo virðist sem endómorfín afbrigðin sem prófuð voru hafi ekki þær neikvæðu aukaverkanir sem ópíóíðar geta haft. Meðal þeirra aukaverkana sem fylgja morfíni er að lyfið getur valdið öndunarbælingu, svo sjúklingar geta þurft á aðstoð öndunarvélar að halda, auk þess sem lyfið er ávanabindandi og dregur fíknin fjölda manns til dauða ár hvert.

Fjögur endómorfín afbrigði voru prófuð í tilraunum rannsóknarhópsins og kom í ljós að þau höfðu ekki neikvæð áhrif á öndun dýranna auk þess sem að þau virkuðu betur gegn sársauka en morfín. Ekki var heldur að sjá af niðurstöðum rannsóknarhópsins að endómorfínin hefðu áhrfi á samhæfingu dýranna, ólíkt því sem gerðist þegar þeim var gefinn morfínskammtur. Loks mynduðu rotturnar minna þol gegn endómorfínunum en morfíni.

Niðurstöður rannsóknarhópsins eru vissulega spennandi og vonast rannsóknarhópurinn til þess að hægt verið að prófa virkni lyfsins á mönnum innan tveggja ára.