Mynd: Hriana, Fotolia
Mynd: Hriana, Fotolia

Psoriasis er eins og segir á vef Húðlæknastöðvarinnar langvinnur bólgusjúkdómur í húð. Sjúkdómurinn brýst yfirleitt fram sem útbrot á húð. Þeir sem þjást af sjúkdómnum upplifa oft mikil óþægindi í húðinni vegna útbrotanna sem geta orðið svo slæm að í þeim myndast sár.

Löngum hefur ein helsta meðferð psoriasis hér á Íslandi falist í löngum böðum í Bláa Lóninu eða sambærilegum stöðum eins og Jarðböðunum við Mývatn. Hingað til hefur þó ekki tekist að skilgreina hvað það er á þessum baðstöðum sem gefur svona góða raun.

En fyrir þá sem ekki hafa greiðan aðgang að baðstöðum eins og finnast hér á landi getur verið gott að komast í annars konar lyf sem slá á útbrotin og nýverið birtist grein í New England Journal of Medicine þar sem nýtt lyf gegn psoriasis er kynnt til sögunnar.

Lyfið var í rannsókninni prófað á þremur mismuandi hópum psoriasis-sjúklinga. Hóparnir samanstóðu samtals af 3.736 sjúklingum í 21 landi. Allir einstaklingarnir sem voru valdir í prófanirnar voru með útbrot á a.m.k. 10% líkamans. Hópunum var tilviljanakennt skipt í hópa sem fengu annars vegar lyfið, ixekizumab, og hins vegar lyfleysu. Eftir 12 vikna meðferð höfðu allt að 80% sjúklinganna annað hvort losnað alveg við útbrotin eða þau höfðu minnkað umtalsvert. Til samanburðar sást sami árangur hjá 3% einstaklinganna í lyfleysuhópnum.

Lyfið ixekizumab er mótefni sem binst við bólguþátt, Interleukin 17A (IL-17A) en IL-17A örvar bólgumyndunina sem leiðir til útbrotanna sem koma fram á húð sjúklinganna. Þegar ixekizumab hindrar virkni IL-17A verður bólgan því ekki eins mikil, ef einhver, og útbrotin minnka.

Það sem vakti ekki síður athygli í þessari rannsókn var hversu langvinn áhrif lyfjanna voru en þeirra gætti enn 60 vikum eftir að meðferð hófst þrátt fyrir að dregið hefði verulega úr lyfjagjöfinni. Þetta eru sannarlega góðar fréttir fyrir psoriasissjúklinga sem hafa lengi barist við sjúkdóminn.