Mynd: Medical News Today
Mynd: Medical News Today

Flestir þekkja hina skæðu veiru sem kallast HIV. Alnæmi er sem betur fer orðið sjaldgæfur fylgikvilli HIV í dag, en sjúkdómurinn getur dregið fólk til dauða á tiltölulega skömmum tíma vegna skertar getu ónæmiskerfisins til að berjast við sýkingar.

HIV veiran og hefðbundin inflúensuveira eiga það sameiginlegt að þróast mjög hratt. Svo hraðar breytingar verða á HIV veirunni að einstaklingur sem hefur smitast getur greinst með marga stofna veirunnar í líkama sínum. Vegna þessa hefur reynst erfitt að finna bóluefni sem hægt er að nota til að kynna ónæmiskerfið fyrir veirunni áður en hún kemur raunverulega til skjalanna.

Nú gæti þó orðið breyting þar á, en nýlega birtist rannsókn þar sem nýtt mótefna-lyf gegn veirunni var þróað. Lyfið er samsett úr þremur mótefnum sem oft finnast í einstaklingum sem eru smitaðir af HIV. Venjulega myndar einn einstaklingur ekki mörg mótefni gegn veirunni og vegna þess að hún stökkbreytist jafn hratt og raun ber vitni, þá dugar ónæmissvar sjúklingsins ekki til við að ráða niðurlögum hennar.

Mótefni eru mynduð í ónæmiskerfinu sem svar við aðskotaefni. Mótefnin bindast við aðskotaefnin, í þessu tilfellli HIV veiruna, og merkja hana sem rusl svo frumur ónæmiskerfisins vita að þessu eigi að eyða. Hingað til hefur reynst erfitt að finna nægilega stöðuga sameind í HIV veirunni til að búa til mótefni gegn henni. En þegar þessi þrjú mótefni eru komin saman virðast þau ná að bindast allt að 99% þeirra afbrigða sem til eru af HIV veirunni. Mótefnablandan má því segja að nái yfir þau þrjú svæði í veirunni sem þróast hægast.

Þegar mótefna-lyfið var prófað í öpum, sem voru síðan sýktir með HIV náðu allir 24 einstaklingarnir að drepa veiruna áður en hún gat tekið sér bólfestu. Enn sem komið er hefur lyfið ekki verið prófað í mönnum, en vonir standa til að geta hafið slík próf strax á næsta ári.

Með tíð og tíma verður lyfið svo mögulega ekki bara nýtt sem lyf fyrir einstaklinga sem þegar eru smitaðir heldur einnig sem bóluefni fyrir þá sem eru útsettir fyrir smiti. Það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi rannsóknum í þessum efnum, en vonandi erum við að horfa fram á stórar breytingar í meðferðum HIV sjúklinga.