Mynd: nJoy Vision
Mynd: nJoy Vision

Enn sem komið er höfum við ekki fullan skilning á því hvað gerist í sjúklingum sem þjást af Alzheimer’s. Við höfum þó ýmsar vísbendingar um hvað það er sem hefur mest áhrif á þær breytingar sem verða á taugakerfinu, eitt af því eru útfellingar svo kallaðs beta-amyloid í heilanum. Uppsöfnun þessa prótína í heilanum eru tilkomin vegna mistaka við framleiðslu þeirra, eitthvað fer úrskeiðis sem veldur því að bygging þeirra verður röng og því gegna prótínin ekki sínu rétta hlutverki.

Í rannsókn sem framkvæmd var við University of Zurich var litlum hópi Alzheimer’s sjúklinga gefið mótefni sem binst sérstaklega við beta-amyloid og gerir líkamanum þannig kleift að losa sig við prótínin.

Mótefnið heitir Aducanumab og er einstofna mótefni úr mönnum, það binst s.s. sértækt við ákveðin prótín. Mótefnið var einangrað úr blóði aldraðra einstaklinga sem ekki höfðu nokkurn vott af beta-amyloid prótínum í sínum líkama.

Alzheimer’s sjúklingar sem var gefið mótefnið í nokkuð stórum skömmtum í allt að ár sýndu ekki bara minni beta-amyloid útfellingar í heila heldur gekk þeim betur á prófum sem ætluð voru til að meta minnistap þeirra eftir meðferðina.

Næstu skref eru að prófa mótefnið í ennþá stærri hópi sjúklinga á fleiri stöðum. Lagt er upp með að prófa hátt um 2700 sjúklinga í 20 löndum víðs vegar um N-Ameríku, Evrópu og Asíu. Þá mun vonandi koma í ljós hversu góð áhrifin af lyfinu eru raunverulega og hverjar mögulegar aukaverkanir lyfsins geta verið.