Mynd: University of Alabama at Birmingham
Mynd: University of Alabama at Birmingham

Antarktíka, heimsálfan við suðurpólinn, er ansi harðneskjulegt vistsvæði. Þar er mjög kalt, mikið um ís og lítið um líf, að því er virðist. Þó eru þar lífverur sem okkur mannfólkinu þykir kannski ekki merkilegar við fyrstu sýn en þær geta haft gríðarmikil áhrif á lífsgæði okkar hér á jörðinni.

Í því tilfelli sem rætt er um í vísindaritinu Organic Letters er vísað í svamp af tegundinni Dendrilla membranosa. Dendrilla membranosa framleiðir nefnilega efni sem hefur fengið nafnið Darwinolide og virðist sem þetta efni muni valda straumhvörfum í baráttu okkar við sýklalyfjaþolnar bakteríur.

Efnið hefur verið prófað á fjölónæma bakteríur af tegundinni Staphylococcus aureus sem gjarnan valda sýkingum og fjölónæmi meðal þeirra er tiltölulega algengt. Hægt var að nota darwinolide til að drepa vel yfir 90% bakteríanna, sem er mun betri árangur en áþekk efni eru að skila.

Til að auka á gleði vísindamannanna, sem starfa við University of Alabama í Birmingham þá felst eiginleiki efnisins mögulega í óvenjulegri byggingu þess. Þó enn eigi eftir að skilgreina hvar virkni efnisins liggur þá binda vísindamennirnir vonir við að geta nýtt þessa óhefðbundnu byggingu efnisins til að búa til fleiri sýklalyf sem hægt verður að nota gegn fjölónæmum bakteríum í framtíðinni.

Þetta eru sannarlega góðar fréttir fyrir okkur öll, en við skulum samt sem áður hafa í huga að sýklalyfjanotkun í óhófi, hvort sem hún á við um gömul eða ný lyf, getur ýtt undir frekari sýklalyfjaónæmi. Þess vegna er mikilvægt að við neytendur höldum áfram að axla ábyrgð á því hvernig við notum sýklalyf.