chocolatecake

Ofát getur leitt til margra hvimleiðra kvilla eins og offitu, sykursýki týpu tvö með tilheyrandi stoðkerfavandamálum og hjarta- og æðasjúkdómum. Samfélaginu öllu er mikill hagur í því að hjálpa fólki að ná stjórn á ofáti þó ekki sé nema í því skyni að minnka þann kostnað sem lendir á heilbrigðiskerfinu við að aðstoða fólk sem berst við ofangreinda kvilla.

Ný rannsókn hefur nú leitt í ljós að hormónið glucagon like peptide-1 (GLP-1) spilar lykilhlutverk í verðlaunastöðvum heilans, þ.e. þeim stöðvum heilans sem virkjast þegar við borðum. Virkni GLP-1 hefur lengi verið þekkt og til er lyf sem hermir eftir áhrifum hormónsins. Rannsóknin sem unnin var við Rutgers University varpar nú skýrara ljósi á hvernig best væri að beita lyfinu til að fá sem besta niðurstöðu.

Vísindahópurinn við Rutgers University notaðist við mýs í tilraunum sínum og annars vegar stöðvuðu seitun GLP-1 eða juku hana í ákveðnum frumum staðsettum í mænukylfunni. Þegar ekkert eða lítil GLP-1 var til staðar virtust mýsnar ekki hafa stjórn á átinu og þar að auki kusu þær að borða feitan mat fram yfir annan. Að sama skapi hafði aukning á GLP-1 þau áhrif að mýsnar átu minna eða því sem nam orkuþörf þeirra.

Þó GLP-1 spili lykilhlutverk í áthegðun okkar er það alls ekki eitt að verki og margir þættir sem koma að, en ef reynt er að miða meðferð gegn GLP-1 á réttan stað í taugakerfinu gætu áhrifin verið mun sterkari en þau virðast vera nú þegar GLP-1 hermiefni er gefið í æð og virkar því um allan líkamann.