Mynd: University of Cambridge
Mynd: University of Cambridge

Við búum í samfélagi þar sem þyngd einstaklinganna sem byggja það fer hækkandi. Aukin ofþyngd leiðir því miður oft til heilsufarstengdra vandamála sem oft hafa áhrif á lífsgæði einstaklinga, jafnvel þó tækninni til að berjast við sjúkdóma fleygi fram. Í rannsókn sem nýlega var framkvæmd við University of Cambridge kemur fram tenging ofþyngdar við enn einn heilsubrestinn, að þessu sinni við hrörnun heilans.

Í rannsókninni voru heilar yfir 500 einstaklinga skoðaðir með segulómun. Sjálfboðaliðum í rannsókninni var skipt uppí tvo mismuandi hópa eftir BMI stuðli, þá annars vegar þeir sem voru í eða undir kjörþyngd og svo þeim sem voru yfir kjörþyngd. Við segulómun kom í ljós að þeir einstaklingar sem flokkuðust yfir kjörþyngd sýndu frekar rýrnun á hvíta efni heilans m.v. þá sem voru í kjörþyngd. Dæmi um slíkar myndir má sjá hér að ofan þar sem guli liturinn táknar hvíta efni heilans en rauðbrúni liturinn táknar gráa efnið. Heilinn hægra meginn sýnir einstakling sem er yfir kjörþyngd.

Það er eðlilegt að hvíta efni heilans rýrni með aldrinum en þegar bornir voru saman jafngamlir einstaklingar í sitt hvorum þyngdarflokknum má segja að munurinn á heilum þeirra jafngilti tíu ára aldurssmun. Þegar hrörnun var svo mæld meðal einstaklinganna með hefðbundnum prófum fyrir elliglöp kom enginn munur í ljós. Það vakti einnig athygli vísindahópsins að sjáanlegur munur á hvíta efni heilans kom einungis fram hjá einstaklingum sem þegar voru komnir á miðjan aldur.

Þessar niðurstöður styðja hugmyndir sem komið hafa fram í fyrri rannsóknum um að ofþyngd geti haft áhrif á taugakerfið, en þetta er í fyrsta skipti sem slíkar hugmyndir eru staðfestar með rannsóknum. Frekari rannsókna er þó þörf til að staðfesta tenginguna en einnig til að skilgreina hvernig ofþyngd hefur áhrif á taugakerfið og hvaða afleiðingar það getur haft.

Þessi rannsókn staðfestir enn frekar það sem svo margar aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að fituvefur er ekki bara forðabúr líkamans heldur er hann mjög lifandi og hefur miklu meiri áhrif í líkama okkar en áður var talið.