Mynd: Total Sorority Move
Mynd: Total Sorority Move

Lekandi er hvimleiður bakteríusjúkdómur sem smitast yfirleitt við kynmök. Sjúkdómurinn stafar af bakteríunni Neisseria gonorroheae sem getur tekið sér bólfestu í slímhúð nánast hvar sem er í líkamanum. Bakterían veldur bólgum sem geta leitt til verkja til dæmis við þvaglát.

Langflestar, ef ekki allar, bakteríur hafa eiginleikann til að taka upp sýklalyfjaþol. Ástæðan fyrir því að sýklalyfjaþol meðal baktería er að verða svona algengt er yfirleitt vegna ofnotkunar sýklalyfja. Þegar mikið er af sýklalyfjum í umhverfi baktería þá eykst þrýstingurinn á bakteríurnar að finna leiðir til að brjóta lyfin niður. Þegar ein baktería hefur fundið leið til að komast hjá sýklalyfinu er auðvelt fyrir hana að fjölga sér og koma upplýsingunum áfram til afkomenda sinna. Auk þess geta bakteríur í kring tekið genið upp úr umhverfinu og einnig er flutningur á genum milli baktería þokkalega algengur.

Neisseria gonorroheae er sérstök að því leiti að hún er fljót að mynda eða taka upp þol við sýklalyfjum og heilbrigðisstarfsfólk hefur lengi haft áhyggjur af þessari þróun. Nú er svo komið að tvö sýklalyf virðast vera einu lyfin sem duga á bakteríuna það eru azithromycin og ceftriaxone. Til að reyna að sporna við þoli bakteríunnar eru lyfin yfirleitt notuð samtímis. Nýjustu rannsóknir benda nú til þess að það dugi ekki til. En þol bakteríunnar við þessum sýklalyfjum hefur snaraukist síðastliðin ár.

Það er því raunverulegur möguleiki að lekandi verið í einhverjum tilfellum ólæknandi. Hvað er þá til ráða? Besta ráðið er að verja sig gegn smiti með því að stunda öruggt kynlíf og nota smokk. Vonandi finnast svo fljótlega fleiri sýklalyf sem hægt verður að nota gegn bakteríunni. Skynsamleg notkun sýklalyfja og heilbrigð kynhegðun mun samt að sjálfsögðu gilda áfram þar sem það er eina von okkar til að örva ekki enn frekar sýklalyfjaþol Neisseria gonorroheae.