Mynd: Kindness Blog
Mynd: Kindness Blog

Dauðinn er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að lifa en það stöðvar okkur ekki í því að reyna að hægja á ferlinu eins mikið og mögulegt er. Nú stendur til að hefja klínískar prófanir á öldrunarlyfi í fyrsta sinn eftir að lyfið gaf góða raun í prófunum á músum. Ef niðurstöður reynast jákvæðar gæti lyfið orðið það fyrsta sinnar tegundar á markaðnum.

Virka efnið í lyfinu nefnist nicotinamide mononucleotide (NMN) og verður í fyrstu prófað á 10 heilbrigðum einstaklingum í þeim tilgangi að kanna hvort menn geti tekið inn lyfið án neikvæðra aukaverkana.

NMN virkar þannig að það örvar framleiðslu á próteinum í flokki sem nefnis siruins sem veikjast þegar við eldumst. Í músum reyndist NMN hægja á rénun í efnaskiptum, sjón og glúkósaóþoli og vilja vísindamenn kanna hvort það sama gerist í mönnum.

NMN er ekki eina öldrunarlyfið sem vísindamenn vinna að því að þróa. Í fyrra reyndist lyfið J147 hægja á öldrun í músum auk þess sem lyfið metformin, sem notað er gegn sykursýki, verður einnig prófað á mönnum á árinu í sama tilgangi.

Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að langt sé í að lyf verði þróað sem hefur áhrif á alla þætti öldrunarferlisins. Þó kann að vera að stutt sé í lyf sem hefur í það minnsta áhrif á einhverja þætti.