bald

Skalli er það kallað á góðri íslensku þegar hár á höfði vantar. Stundum er einnig talað um skalla eða skallabletti annars staðar á líkamanum en yfirleitt er verið að vísa í hárlaus höfuð þegar þetta orð er notað. Hvar svo sem þetta tiltekna hárleysi á sér stað hafa ýmsar rannsóknir verið framkvæmdar til að skoða hvað veldur. En mörgum sem hann prýða, þykir skalli miður fagur, og er þá yfirleitt verið að vísa í hárlaus höfuð.

Fyrir þá sem hafa miklar áhyggjur af höfuðhárinu gætu nýbirtar niðurstöður verið einstaklega áhugaverðar fréttir. Rannsóknarhópur sem staðsettur er við University of California San Francisco hefur nú birt grein í Cell þar sem sýnt er fram á áhrif ónæmiskerfisins á hárvöxt.

Í rannsókninni var hópurinn að skoða mýs sem skorti ákveðna týpu frumna sem kallast Treg (T regulatory) frumur. Þessar frumur hafa áhrif á T-frumur og tilheyra ónæmiskerfinu, alveg eins og þær. Mýsnar, sem notaðar voru í rannsókninni og vantaði Treg frumur virtust ekki getað endurnýjað hár sín sem voru fjarlægð. Þegar hópurinn fjarlægði hár af líkömum músanna með rakstri óx hárið aftur hjá eðlilegum músum en þegar Treg vantaði var engin örvun á hárvexti.

Þegar staðsetning Treg frumnanna var skoðuð í eðlilegum músum kom í ljós að frumurnar mynduðu hnappa í kringum og með vefjasérhæfðum stofnfrumum sem gegna því hlutverki að mynda hár sem og nýja hársekki í húð. Svo virðist sem ónæmiskerfið gegni þar tvíþættu hlutverki annars vegar örvi hárvöxt og endurnýjun og hins vegar verndi stofnfrumurnar fyrir bólgum, en T-frumur spila lykilhlutverk í bólgusvari.

Áframhaldandi rannsóknir á skalla gætu með tímanum svarað því hvers vegna Treg gegna ekki sínu rétta hlutverki þegar skalli myndast. Í framtíðinni verður svo mögulega hægt að virkja Treg frumurnar á ný til að koma í veg fyrir hárleysið.