Mynd: Omega Animal Removal
Mynd: Omega Animal Removal

Flestir muna eftir ebólufaraldrinum sem nýlega fór um vesturhluta Afríku, þar sem þúsundir manna dóu af völdum veirunnar. Ebóla er skæð veira sem dregur flesta sem af henni smitast til dauða. Algengt er að menn smitist af veirunni þegar þeir leggja sér hrátt leðurblökukjöt til munns.

Það vill nefnilega svo furðulega til að ebóluveiran drepur flest spendýr sem hún kemst í tæri við, en það á ekki við um hið sérstaka spendýr leðurblökuna. Raunar lifa leðurblökur í sátt og samlyndi við fjölmargar veirur sem draga flest önnur spendýr til dauða. Vísindahópur við CSIRO, rannsóknarstofu í dýraheilsu í Ástralíu, hafði áhuga á að vita hvers vegna leðurblökur geta átt í svona sérstöku sambandi við sýkla sem við mennirnir þolum ekki. Til að skoða þetta skyggndist hópurinn inní ónæmiskerfi leðurblaka sem lifa í Ástralíu.

Ónæmiskerfi spendýra skiptist gróflega í tvo meginflokka, sérhæfða og ósérhæfða ónæmiskerfið. Hið ósérhæfða fer af stað um leið og sýkill kemst í snertingu við líkamann. Ósérhæfði hluti ónæmiskerfisins er alltaf eins óháð því hver sýkillinn er og kerfið leggur ekki nein séreinkenni sýkilsins á minnið. Hluti af ósérhæfða ónæmiskerfinu eru bólguþættir sem kallast interferón, en til eru nokkrar útgáfur af því. Vísindahópurinn við CSIRO skoðaði meðal annars tjáningu interferóngenanna í leðurblökunum.

Í ljós kom að interferón-alfa er stanslaust tjáð í leðurblökunum, öfugt við það sem á sér stað í manninum. Þetta þýðir að fyrsta svar ónæmiskerfisins er alltaf í gangi hjá dýrunum. Væri kerfið alltaf í gangi hjá okkur mönnunum myndi það leiða til eitrunaráhrifa. Þetta er hins vegar ráð leðurblökunnar til að verjast sýkingum frá veirum sem lífveran lifir þess í stað samlífi með.

Ef hægt væri að hafa á einhvern hátt áhrif á ónæmiskerfið í manninum til að herma eftir ónæmiskerfi leðurblökunnar án þess að það hefði neikvæð áhrif gætum við nýtt okkur þetta saman kerfi til að berjast gegn veirusýkingum á borð við ebólu. Enn er þó langt í land með slíkar meðferðir en áframhaldandi rannsóknir á leðurblökum munu að öllum líkindum fara fram, sér í lagi til að skilgreina veiruna og samlífi hennar við hýsilinn betur. Hægt er að nálgast greinina í fullri lengd hér.