Mynd: New York Post
Mynd: New York Post

Plastúrgangur frá mannfólkinu er stöðugt vaxandi vandamál. Plast brotnar illa niður og drekkur þar að auki í sig eitruð efni sem finnast í umhverfinu og valda þannig mikilli eitrun í þeim dýrum sem éta plastagnir. Mikið kapphlaup er um að finna örugga og áhrifaríka leið til að brjóta niður plastið og vinna það, án þess að úr verði mikil mengun. Í Stanford háskóla og Beihang háskóla er að finna vísindahóp sem tekur þátt í þessu kapphlaupi og virðast nú hafa komist að mjög áhugaverðri niðurstöðu.

Hóparnir notuðust við mjölorma, lirfustig darkling bjöllunnar, til að borða frauðplast. Ormarnir átu ekkert nema plast meðan á tilrauninni stóð og vísindamennirnir fylgdust grannt með líðan þeirra sem og úrgangi þeirra til að sjá hvort þar reyndust einhver efni sem gætu talist hættuleg umhverfinu.

Rannsóknin gefur til kynna að ormarnir éti og brjóti niður allt plastið og skili því af sér sem ómengandi efni. Fyrri rannsóknir á niðurbroti á plasti hafa leitt í ljós að ekki er um að ræða niðurbort hjá dýrinu sjálfur heldur eru þar að sjálfsögðu þarmabakteríur að verki. Líkurnar eru að slíkt sé líka tilfellið hér. Næstu skref rannsakenda eru að skilgreina bakteríurnar sem brjóta niður plastið og skoða hvaða aðferðum er beitt til þess. Mögulega verður síðar meir hægt að efla þessa ferla og búa þannig til lífveru sem getur brotið niður enn meira magn af plasti.

Frauðplast er reyndar bara ein gerð plasts og mögulega væri erfiðara að láta ormana éta einhverja aðra týpu. Hins vegar er frauðplast líka ein af fáum tegundum plasts sem ekki ert hægt að endurvinna, en það tekur samt sem áður gríðarlega mikið pláss. Svo það munar mjög miklu að losna við þessa tegund rusls úr urðun. Framtíðin ber vonandi í skauti sér fleiri lífverur, jafnvel sem lifa í sjó, sem geta losað okkur við alla þá plastmengun sem við stríðum við í heiminum í dag.