Mynd: American Museum of Natural History

Vísindaheiminum og okkur á Hvatanum hefur undanfarið verið tíðrætt um örveruflóruna okkar og það gildi sem hún hefur fyrir heilsuna. Hvernig örveruflóra skapast hjá okkur er nokkrum breytum háð og vilja vísindamenn meina að þar spili bæði inni erfðaefni hýsilsins og lífstíll viðkomandi.

Í rannsókn sem birtist í Nature í lok síðasta mánaðar er þetta samband okkar við örverurnar tekið fyrir. Þar var viðfangsefnið rúmlega 1000 manna þýði sem gáfu DNA sýni, sýni til að skoða örveruflóruna, ásamt upplýsingum um lífstíl þ.m.t. matarræði, hreyfingu og lyfjanotkun. Einnig voru framkvæmdar ýmsar mælingar á klínískum þáttum eins og kólesteróli, líkamsfitu, blóðþrýstingi og blóðsykri svo dæmi séu nefnd.

Hópurinn sem valinn var í rannsóknina hafði tekið þátt í verkefni sem sneri að matarræði. Það gerði það að verkum að þarna var samankominn stór hópur með breytilegan erfðabakgrunn og tiltölulega fáa hópa m.t.t. matarræðis.

Þegar erfðasýni þátttakennda og samsetning örveruflórunnar voru borin saman kom í ljós að erfðaefni hýsilsins hafði ekki mikil áhrif á samsetningu örveruflórunnar, um 2% fjölbreytileika örveruflórunnar var hægt að skýra með eða tengja við ákveðna erfðaþætti. Lífsstíll sýndi hins vegar mikla fylgni við samsetningu örveruflórunnar.

Til að kafa enn dýpra í áhrif bakteríanna á líkama þátttakenda var örverusamsetningin borin saman við hina ýmsu þætti eins og blóðþrýsting, offitu og blóðsykur. Við þessa greiningu kom fram sterk fylgni milli áðurnefndu klínísku þátta við fjölbreytileika örveruflórunnar.

Enn of aftur sannast hversu vel við verðum að hugsa um bakteríuflóruna okkar. Heilbrigður lífsstíll er eitt af lykilatriðum til að viðhalda heilbrigðri örveruflóru og þar af leiðandi heilbrigðum líkama.