Christopher Thomond // The Guardian
Christopher Thomond // The Guardian

Það er alltaf sorgarstund þegar gæludýr deyja. Flestir jafna sig þó á missinum eftir einhvern tíma, enda er dauðinn óhjákvæmilegur fylgifiskur lífsins. Það má því kannski segja að Richard Remde og Laura Jacques frá Vestur Yorkshire á Englandi hafi sigrast á dauðanum þegar þau létu klóna boxer hundinn Dylan eftir að hann lét lífið úr heilaæxli í júní.

Remde og Jacques greiddu 67.000 pund eða tæpar 13 milljónir íslenskra króna fyrir það að láta klóna Dylan hjá Sooam Biotech Research Foundation í Suður-Kóreu og voru himinlifandi þegar fréttir bárust um það að staðgöngutíkur gengju með tvo hvolpa.

Hvolparnir tveir fæddust í gær (28. desember) og 26. desember og hafa fengið nöfnin Chance og Shadow. Að því er kemur fram á vefsíðu The Guardian fæddist Shadow á náttúrulegan hátt en Chance var tekinn með keisaraskurði. Báðir hvolpar eru heilbrigðir og sjá staðgöngumæður þeirra þeim fyrir næringu, ást og umhyggju. Vegna þess að um klónaða hvolpa er að ræða hafa þeir Chance og Shadow verið merktir með númerunu 746 og 747 svo þeim sé ekki ruglað saman.

Remde og Jacques eru að vonum ánægð með nýju fjölskyldumeðlimina og hafa stofnað Twitter reikninginn WeLovedDylan til þess að fólk geti fylgst með gangi mála.

Þetta óvenjulega mál er merkilegt fyrir vísindasamfélagið að því leiti að hvolparnir voru klónaðir með því að nota erfðaefni úr hundi sem hafði dáið tæpum tveimur vikum áður. Fyrra met var fimm dagar. Ekki eru þó allir sammála um ágæti þess að láta klóna látin gæludýr og hefur talsmaður RSPCA í Bretlandi til dæmis bent á siðfræðileg vandamál og vandamál tengd dýravelferð sem fylgja slíkri klónun.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá myndband af þeim Chance og Shadow auk myndbands þar sem fjallað er um það hvernig klónunin fór fram.