Glerungurinn er það sem myndar ysta lag tannanna, án hans eru tennurnar viðkvæmar og berskjaldaðar fyrir utanaðkomandi þáttum eins og breytingum í sýrustigi og bakteríum. Glerungurinn er myndaður af sérstökum frumum sem einungis eru lifandi á meðan tennurnar eru að myndast, þannig að eftir að barn hefur myndað allar tennurnar þá deyja þessar frumur, enda er þeirra hlutverki lokið.

Þetta fyrirkomulag er ekki sérlega heppilegt fyrir skepnu sem nær jafnháum aldri og maðurinn. Þó við lifum í alla þessa tugi ára þá fáum við engan nýjan glerung þegar sá upprunalegi skemmist. Eina leiðin til að takast á við það eru töfrar tannlæknanna sem fylla uppí holurnar í munni okkar með efnum. Það er a.m.k. eina þekkta leiðin hingað til.

Í nýrri rannsókn sem unnin var við Univerisity of Washington prófaði rannsóknarhópurinn að endurgera glerunginn með bútum (peptíðum) úr prótíninu amelogenin sem myndar glerunginn. Þau bjuggu til holu í tennur á rannsóknastofu, bættu síðan peptíðunum í sárið sem ásamt kalk og fosfat jónum mynda nýtt glerungslag.

Enn sem komið er hafa peptíðin bara verið prófuð á rannsóknarstofu en næsta skref er að sjá hvað peptíðin gera í munni, þar sem erfiðara er að hafa stjórn á aðstæðum. Þó þessar rannsóknir lofi góðu er samt ennþá mikilvægt að hugsa vel um tannheilsuna, því ef skemmdin nær innfyrir glerunginn er lítið sem þessi peptíð geta gert. Þessi peptíð geta þó hugsanlega nýst sem fyrirbyggjandi meðferð, svipað og flúor í tannkremi er núna.

Þess má þó geta að fleiri rannsóknahópar hafa verið að skoða aðra möguleika í tannviðgerðum, m.a. hópur frá King College London sem Hvatinn fjallaði um í fyrra. Kannski liggur framtíðin í því að sameina þessar tvær aðferðir inná tannlæknastofunni og byggja þannig upp nýjan tannvef.