Mynd: Quantov
Mynd: Quantov

Þeir sem þjást af exemi vita að það getur valdið miklum óþægindum sem oft gengur illa að vinna bug á. Þrátt fyrir miklar rannsóknir er enn ekki algjörlega skilgreint hvað það er sem veldur exemi en þó er vitað að nokkrar týpur exems eru til sem líklega koma til af mismunandi orsökum. Eitt er þó sameiginlegt þeim öllum, ónæmiskerfið er einhverra hluta vegna að bregðast við áreiti sem kemur fram sem útbrot og kláði.

Í University of California San Diego var framkvæmd lítil rannsókn á algengustu týpu exems, ofnæmisexem (atopic eczema). Rannsóknarhópurinn vann með 49 einstaklinga með ofnæmisexem og 30 heilbrigða einstaklinga. Tekin voru sýni af húð allra þáttakenda til að kortleggja bakteríuflóru húðarinnar, en helst var leitað eftir Staphylococcus tegundum þar sem fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á tengingu þeirra við sjúkdóminn.

Í ljós kom að einstaklingar með exem voru með allt aðra samsetningu baktería í samanburði við heilbrigða. Bakterían Staphylococcus aureus var algeng á húð exem sjúklinga meðan Staphylococcus hominis og Staphylococcus epidermis voru í meiri hluta á húð heilbrigðra einstaklinga. Til að hafa áhrif á þetta hlutfall einangraði hópurinn Staphylococcus hominis og Staphylococcus epidermis af húð sjúklinganna, blönduðu bakteríunum í krem og báru kremin svo á útbrot sjúklinganna. Hver og einn sjúklingur var því með persónulegt krem, blandað bakteríum frá þeirra eigin húð.

Sólarhring seinna var nýtt sýni tekið af húð sjúklinganna og strax þá hafði hlutfall bakteríanna breyst svo Staphylococcus aureus var á undanhaldi. Í þessari rannsókn var ekki farið í lengri meðhöndun svo ekki kemur fram hvort kremið hafði áhrif á útbrotin sjálf, en næstu skref hópsins eru að fá fleiri þátttakendur í lengri rannsókn svo hægt verði að meta áhrif bakteríanna á exemið.

Hér sannast enn og aftur hvernig samlífi okkar og örveranna hefur áhrif á líf okkar og líðan. Hægt er að lesa frekar um rannsóknina í Stat news og The Atlantic