Mynd: FoodNavigator
Mynd: FoodNavigator

Glúten er eins og Hvatinn hefur áður fjallað um prótín sem er að finna í t.d. ýmsum kornvörum og öðru sem við erum vön að borða. Margir velja glúten-frítt matarræði vegna þess að þeir finna til óþæginda í meltingavegi við að innbyrgða prótínið meðan aðrir verða að halda sig við glúten-frítt matarræði vegna sjúkdóms sem heitir á íslensku glútenólþol eða celiac. Fyrir þá sem sneiða framhjá glúteni vegna óþæginda gæti töfralausn nú verið á leið á markað.

Töfralausnin kallast GluteGuard og er framleidd af áströlsku líftæknifyrirtæki sem heitir Glutagen. GluteGuard er náttúrulyf sem unnir er úr ensími sem finnst í papaya ávextinum. Ensímið brýtur niður glúten í minni prótín eða peptíð sem er auðveldara fyrir mannslíkamann að melta. Því miður er ekki nóg að borðað papaya til að taka inn ensímið þar sem það eyðileggst í marasýrunum, þess vegna er því pakkað inn í nokkurs konar hjúp sem brotnar niður þegar efnið er komið úr maganum og inní þarmana.

Enn sem komið er hefur GluteGuard ekki verið nægilega mikið rannsakað til að hægt sé að flokka það sem lyf. Hins vegar er það nú þegar selt sem náttúrulyf en framleiðendur vara þó við því að fólk sem þjáist t.d. af glútenóþoli (celiac) noti lyfið í stað þess að sleppa glúteni. Tvær litlar rannsóknir hafa verið gerðar á fólki, annars vegar þeim sem þjást af glútenóþoli og hins vegar fólki sem þjáist af hringblöðrubólu. Báðar rannsóknirnar gefa jákvæðar vísbendingar um að lyfið sé hægt að nota að einhverju leiti í stað glúten-laus fæðis en það átti þó ekki við um alla þátttakendur.

Glutagen nefnir í fréttatilkynningu um lyfið að líklega sé hægt að nota lyfið þegar hætta er á krossmengun glútens í matvælum eða fyrir fólk sem finnur fyrir vægum óþægindum við glúten-inntöku. Aðrir sem hafa verið greindir með hættulega sjúkdóma á borð við glútenóþol ættu ekki að taka áhættuna og missa sig í fransbrauðinu alveg strax.