11006209_10152710303327705_121013686_n

Höfundur: Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, líffræðingur og grunnskólakennari

Mislingar hafa fylgt mönnum í aldaraðir og geysuðu hér á landi á 19. öld. Það var ekki fyrr en á 8. áratug síðustu aldar að tókst að þróa bóluefni gegn sjúkdómnum og hefur það reynst vel í takmörkun mislingasmita.

Mislingar eru veirusýking sem berst mjög auðveldlega á milli manna og getur valdið mjög alvarlegum afleiðingum ef ekkert er að gert. Allt að 10% þeirra sem fá mislinga enda á að fá afleidda sjúkdóma, svo sem eyrna-eða lungnabólgu eða jafnvel heilabólgu. Meðferð við mislingum sem slíkum er ekki til enda um veirusýkingu að ræða sem sýklalyf verka ekki á. Bólusetning hefur hinsvegar verið notuð í baráttunni gegn sjúkdómnum til að ná upp svokölluðu hjarðónæmi. Hjarðónæmi er þegar nægilega stór hluti samfélagsins er ónæmur fyrir sjúkdómnum svo hann nái sér ekki af stað, þetta hlutfall þarf að vera um 90% þegar um mislinga er að ræða. Börn eru bólusett við 15-24 mánaða aldur og svo aftur við 3-4 ára aldur með svokölluðu MMR bóluefni, en þá er gefið í einum skammti bóluefni við mislingum, rauðum hundum og hettusótt. Hér á landi er bólusetningarhlutfallið um 95% en hefur farið lækkandi á síðustu árum, bæði hérlendis og annarsstaðar í heiminum vegna fjölda þeirra sem kjósa að bólusetja ekki börn sín.

Mislingafaraldrar geysa reglulega í heiminum og má rekja það fyrst og fremst til þess þegar bólusetning misferst. Í þróunarlöndum eru ýmis hjálparsamtök sem standa fyrir bólusetningum og hafa faraldrar þar verið beintengdir við samdrátt í bólusetningum. Á vesturlöndum hinsvegar, þar sem aðgengi að bólusetningum er mjög gott, hafa samskonar faraldrar skotið upp kollinum síðustu ár og jafnframt verið tengdir við lægra hlutfall bólusettra einstaklinga. Sem dæmi má taka faraldur sem nú geysar í Bandaríkjunum en gríðarlega hröð útbreiðsla hans er fyrst og fremst talin vegna þessa. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti því yfir árið 1987 að mislingum skyldi útrýmt fyrir árið 2000. Eins og með ýmis önnur markmið fyrir þessi tímamót tókst það ekki en nú er stefnt að útrýmingu fyrir árið 2020. WHO leggur þar höfuðáherslu á að bólusetja í þróunarlöndum þar sem heilbrigðiskerfið er alls ekki í stakk búið að taka á stórri hrinu alvarlegra veikinda en jafnframt að fræða foreldra á vesturlöndum um mikilvægi bólusetninga.

En hverjar eru ástæðurnar fyrir því að fólk afþakki bólusetningu? Þær eru jú nokkuð margar, en helst má þó rekja þær til óáreiðanlegra sögusagna um innihaldsefni bóluefna og afleiðinga bólusetningarinnar. Lífseigasta flökkusagan á þó rætur sínar að rekja til Andrew nokkurs Wakefield, fyrrum læknis, sem birti niðurstöður rannsóknar sinnar árið 1998 og taldi hann þar að óyggjandi tengsl væru á milli einhverfugreiningar og bólusetningar með MMR. Hinsvegar var ekki hægt að endurtaka rannsóknir Wakefields en seinna kom í ljós að ekki einungis hafði hann beinlínis falsað rannsóknarniðurstöður heldur einnig þegið gríðarlegar fjárhæðir sem talið var að hefðu haft sitt að segja um niðurstöður rannsóknarinnar. Einnig hafði Wakefield sjálfur unnið að þróun annars bóluefnis til að keppa við MMR bóluefnið svo líklegt má telja að aðrir hefðu verið töluvert betur til þess fallnir að stjórna rannsókninni. Áhrifanna gætir enn, jafnvel þó rannsóknin hafi verið dregin til baka árið 2010 og að fjölmargar rannsóknir hafi verið framkvæmdar síðan til að skoða möguleg tengsl einhverfu og bólusetningar með MMR og engin þeirra sýnt fram á orsakasamhengi þar á milli.

Mislingar hér á landi eru mjög sjaldgæfir, raunar hafa einungis einu sinni greinst mislingar hér síðan árið 1996 og má þakka það að miklu leyti hversu hátt bólusetningarhlutfallið er. Það er þó mikilvægt að sem flestir þyggi bólusetninguna þar sem alltaf er ákveðinn hluti sem ekki getur fengið hana vegna undirliggjandi sjúkdóma o.þ.h. Með bólusetningu ert þú nefnilega ekki einungis að hugsa um eigin heilsu, heldur einnig samfélagsins alls.

Heimildir:
http://www2.aap.org/immunization/families/mmr.html
http://www.who.int/immunization/newsroom/Measles_Rubella_StrategicPlan_2012_2020.pdf?ua=1