Mynd: American Pregnancy Association
Mynd: American Pregnancy Association

Hvatinn hefur áður fjallað um þrívíddar prentun og hvernig þessi nýjung hefur valdið byltingu í læknavísindunum. Vísindamenn geta nú prentað líffæri sem geta haft virkni inní líkama.

Samkvæmt rannsókn sem unnin var við Northwestern University erum við nú skrefi nær því að meðhöndla ófrjósemi kvenna að hluta til með líffærum sem koma til með þrívíddar prentun.

Í rannsókninni voru búnir til eggjastokkar til að hýsa óþroskaðar eggfrumur músa. Eggjastokkarnir voru prentaðir með gelatíni, sem er niðurbrotið kollagen og hentar vel sem undirstaða prentaðra líffæra vegna þess að kollagen finnst í miklum mæli í líkömum okkar og hefur þar ákveðna virkni. Gelatínið hefur svipaða virkni og forveri þess, kollagenið, en er samt sem áður meðfærilegt.

Eggin sem komið var fyrir í gelatín-eggjastokkum náðu að þroskast og frjóvgast við æxlun, svo úr urði litlir og heilbrigðir músaungar. Þetta þýðir að þó eggjastokkurinn hafi komið til með þrívíðri prentun gegndi hann samt sem áður hlutverki hefðbundins eggjastokks með sóma.

Í framtíðinni munum við mögulega getað notað þessa eða svipaða tækni til að hjálpa konum sem einhverra hluta vegna eru ekki með virka eggjastokka. Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá Teresu Woodruff og Ramille Shah, sem stýrðu rannsókninni, útksýra innihald rannsóknarinnar.