Liu, et al./Cell, 2018

Kínverskum vísindamönnum hefur tekist að klóna prímata fyrstir manna. Þetta er í fyrsta sinn sem klónun á prómötum heppnast svo vitað sé. Sama aðferð var notuð við klónunina og þegar kindin Dolly var klónuð á sínum tíma.

Klónunin var framkvæmd af vísindamönnum við Chinese Academy of Sciences í Shanghai og gaf af sér tvo kvenkyns apa sem bera nöfnin Zhong Zhong og Hua Hua. Ef hægt verður að endurframkvæma klónunina gefur tæknin möguleika á því að rækta apa sem allir hafa sömu erfðaeiginleika. Slíkir apar eru kjörin en umdeild viðfangsefni í ýmsar rannsóknir á sjúkdómum manna.

Rannsóknarhópurinn tekur sérstaklega fram að ætlunin sé ekki að nýta aðferðina til að klóna menn. Fremur vonast þeir til þess að hún nýtist við læknisfræðilegar rannsóknir.

Aðferðin sem notuð var kallast SCNT (e. somatic cell nuclear transfer) og byggir á því að fjarlægja kjarna eggfrumu og koma í stað hans fyrir tvílitnakjarna úr frumu einstaklingsins sem skal klóna. Þar með er heilu erfðaefni komið fyrir í egginu. Eggfruman er síðan örvuð til að skipta sér og að lokum er henni komið fyrir í legi staðgöngumóður. Ef allt gengur að óskum fæðist heilbrigð klónuð lífvera.

Áður hefur tekist að klóna 23 tegundir spendýra með aðferðinni en hún hefur ekki gefið góða raun í prímötum þar til nú. Ástæðuna má rekja til þess að erfiðlega hefur gengið að forrita frumuna til að hegða sér eins og hefðbundinn fósturvísir.

Klónun hefur verið umdeild tækni frá upphafi og eru rannsóknir þar sem prímatar eru notaðir ekki síður umdeildar vegna gáfna þeirra og skildleika við menn. Afar strangar reglur gilda um rannsóknir á prímötum víðsvegar um heiminn og á Vesturlöndum má aðeins nýta þá sem tilraunardýr ef ekkert annað dýramódel kemur til greina og rannsóknin er sérstaklega mikilvæg í læknisfræðilegum skilningi. Reglurnar eru ekki jafn strangar í Asíu og eru því margar rannsóknir á prímötum sem fara þar fram.

Það kemur því ekki á óvart að klónunin á öpunum sé einnig umdeild í samfélaginu en rannsóknarhópurinn vonast til þess að íbúar á Vesturlöndum muni skilja gagnsemi klónaðra apa í rannsóknum með tímanum.

Grein um rannsóknina var birt í tímaritinu Cell.