Mynd: CBS
Mynd: CBS

Á síðastliðnum áratugum hefur börnum og unglingum sem glíma við offitu fjölgað hratt og þá sér í lagi á Vesturlöndum. Fram að þessu hafa ástæðurnar helst verið taldar mataræði, hreyfingarleysi og erfðir. Hópur vísindamanna á Bretlandi hefur nú fundið aðra skýringu og tengist hún eiginleika sem líklega þróaðist fyrir þúsundum ára.

Á unglingsárunum þurfum við aukna orku fyrir allan þann vöxt sem fer fram á þessu æviskeiði, nánar tiltekið 20-30% meiri orku á dag. Þessi orka getur auðvitað komið frá fæðu en svo virðist einnig að það hreinlega hægist á brennslu á unglingsárunum.

Í rannsókninni sem um ræðir fylgdust vísindamenn með börnum frá fimm til 16 ára aldurs á árunum 2000 til 2012. Líkt og búist var við kom í ljós að eftir því sem börnin urðu eldri brenndu þau sífellt fleiri hitaeiningum. Eftir 10 ára aldur varð þó breyting þar á en skyndilegt fall varð í efnaskiptahraði barnanna, þrátt fyrir það að þau væru farin að vaxa enn hraðar. Þegar 15 ára aldri var náð var brennslan orðin 25% minni og var munurinn svipaður hjá báðum kynjum. Við 16 ára aldur varð brennslan síðan hraðari á ný, einmitt þegar hægja byrjaði á vaxtarkippnum sem fylgir unglingsárunum.

Hér gæti því vera komin skýring á því hvers vegna unglingum er svo hætt við því að bæta á sig aukakílóum. Orkusparnaðurinn kann að hafa hjálpað unglingum í veiðimanna- og safnarasamfélögum þar sem erfitt var að nálgast fæðu en hefur hins vegar neikvæð áhrif í nútímasamfélagi þar sem meira en nóg er af hitaeiningaríkri fæðu.

Vísindamennirnir vona að niðurstöðurnar hjálpi til við það að skilja og berjast gegn offituvandanum með því að skilja þær ástæður sem liggja að baki og sníða mataræði og hreyfingu unglinga eftir því.