Mynd: CellPod - VTT
Mynd: CellPod – VTT

Við vitum öll að grænmeti er hollt og gott, sú viska hefur verið margtuggin ofan í okkur af uppalendum, fjölmiðlum og samfélaginu öllu. Þó kostnaður umhverfisins við að rækta grænmeti eða ávexti ofan í mannfólkið sé kannski ekki jafnhár og kostnaðurinn við að rækta kjöt þá verður að viðurkennast að með vaxandi mannfjölda verður erfiðara að fá nægjanlegt jarðnæði, góðan jarðveg og vatn til að fæða heiminn. En rannsóknarhópur við finnsku rannsóknarsofnunina VTT vinnur einmitt að lausn á því.

Svar VTT er nokkurs konar heimaræktun á einstökum plöntufrumum, en hópurinn hefur þróað tæki sem kallast CellPod og er eiginlega heimaræktunarstöð fyrir plöntufrumur. Plöntufrumurnar sem notaðar eru í þessa ræktun eru sömu frumur og búa til næringarefnin í grænmetinu eða ávöxtunum sem við borðum.

Afurðin úr CellPod er frumumassi sem minnir kannski svolítið á hafragraut. En þó að ekki verði úr heill ávöxtur þá fáum við það sem við sækjumst eftir úr matnum, svo sem vítamín, prótín og trefjar. Það sama er því miður ekki hægt að segja um bragðið, en rannsóknarhópurinn vinnur nú að því að bæta bragðþættinum inní ræktunina.

Þetta þýðir að við getum ræktað næringarhluta plöntunnar án þess að eyða orku í að búa til plöntuna sjálfa. Þetta sparar okkur heilmikla orku og pláss. Enn sem komið er hafa niðurstöður hópsins ekki verið birtar í ritrýndu tímariti en hægt er að lesa allt um verkefnið á heimasíðu þess sem vísað er í hér að ofan og einnig er hægt að líka við verkefnið á facebook.