travel-vaccinations-picture-data

Flestir eru sammála um mikilvægi bólusetninga en þeim fer þó fjölgandi sem tala gegn þeim. Að hluta til má rekja ástæðuna til greinar sem birt var árið 1998 þar sem því var haldið fram að tengsl væru á milli bólusetninga og einhverfu. Það er fyrir löngu ljóst að höfundur greinarinnar, Andrew Wakefield, falsaði niðurstöður hennar en þrátt fyrir það eru enn þeir sem halda fram skaðsemi bólusetninga.

Í ljós þessa skoðaði hópur vísindamanna við Centres for Disease Control and Prevention í Bandaríkjunum þau 1.789 tilfelli mislinga sem komu upp í Bandaríkjunum á árunum 2001 til 2015 til að meta breytingar á útbreiðslu sjúkdómsins og ástæðurnar fyrir þeim.

Meginniðurstöður rannsóknarhópsins voru að þær að fjöldi mislingatilfella fer vaxandi í landinu og að um 70% þeirra sem greindust með mislinga á tímabilinu voru óbólusettir.

Árið 2001 voru tilfelli mislinga 0,28 tilfelli á hverja milljón íbúa en árið 2015 hafði tilfellum fjölgað og voru þau 0,56 á hverja milljón.

Aðeins voru 535 tilfelli sem bárust til landsins erlendis frá en 1.477 einstaklingar smituðust innan landsins sjálfs. Af þeim sem smituðust var vitað að 1.243 (69,5%) voru ekki bólusettir gegn sjúkdómnum en að auki var bólusetningasaga 17,75% ekki þekkt.

Rannsóknin er ekki gallalaus þar sem að erfitt var að segja til um bólusetningastöðu fullorðinna einstaklinga sem fengu mislinga á tímabilinu. Ekki er útilokað að einhverji þeirra hafi í raun verið bólusettir því þó að bólusetning dragi verulega úr líkum á sjúkdómnum er mögulegt að bólusetningin virki ekki í einhverjum tilfellum.

Niðurstöðurnar benda til þess að það sé fremur lækkandi tíðni bólusetninga en léleg virkni bólusetninga sem er að valda auknum mislingatilfellum.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu The JAMA Network.