vaccine-shutterstock-40350883-WEBONLY-676x450

Á síðastliðnum fimm árum hafa engin ný tilfelli af veirusjúkdómnum rauðum hundum (e. rubella) verið tilkynnt í Ameríku samkvæmt fréttatilkynningu frá Alþjóðaheilbrigðisstofnunni. Þetta þýðir að hægt sé að bæta rauðum hundum við listann yfir sjúkdóma sem búið er að útrýma í heimsálfunni, ásamt bólusótt og mænusótt.

Rauðir hundar smitast með andrúmsloftinu með hósta eða hnerra. Einkennin eru meðal annars útbrot sem yfirleitt eiga upptök sín á andliti en dreifast síðan um líkamann, höfuðverkur, liðverkir og bólgnir eitlar. Í sumum tilfellum fær sjúklingurinn liðbólgur og heilabólgu. Ef sjúkdómurinn smitast í barnshafandi konur á fyrstu þremur mánuðum meðgöngunnar getur sjúkdómurinn valdið alvarlegum fósturskaða.

Áður en bóluefni kom á markað gegn rauðum hundum mátti rekja um 5.000 tilfelli fósturdauða til sjúkdómsins á ári og voru tilfelli sjúkdómsins á milli 15.000-20.000 á ári í Suður- og Norður-Ameríku. Á sjöunda áratugnum kom á markað bóluefni gegn rauðum hundum og árið 1971 voru bóluefni gegn rauðum hundum, mislingum og hettusótt sameinuð í einn skammt sem nefnist MMR.

Rauðir hundar eru enn eitt dæmi um það hversu öflugar bólusetningar eru og stefnir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin á það að útrýma sjúkdómnum í Evrópu fyrir lok þessa árs.

Heilmildir: WHO og IFL Science