Reykelsi

Reykelsi eru nokkurs konar prik sem kveikt er á til að fá ilm. Í mörgum löndum tíðkast að kveikja á reykelsi til að gefa heimilinu ilm og oft eru þau notuð í musterum eða við trúarlegar athafnir. Margir tengja reykelsi við hreyfingu á borð við jóga, en öfugt við jóga eru reykelsi ekki sérlega heilsusamleg. Ný rannsókn hefur leitt í ljós að reykelsisreykur getur jafnvel innihaldið fleiri skaðleg efni en sígarettureykur.

Í rannsókninni er reykelsisreykur borinn saman við tóbaksreyk og áhrif hvors tveggja eru könnuð á bakteríur og hamstrafrumur. Greining á innihaldi reyksins leiddi í ljós að reykurinn getur innihaldið allt að 64 efnasambönd sem flest mynda mjög fínar agnir, en það er ekki sérlega hollt að anda slíkum efnum að sér.

Samkvæmt rannsókninni eru mörg efnanna skaðleg og geta valdið stökkbreytingum á DNA-i og hafa eitrunaráhrif á frumurnar. Tvö efnanna eru talin mjög hættuleg og því ekki ráðlagt að anda þeim að sér undir nokkrum kringumstæðum. Þegar áhrif reykelsisreyksins voru mæld á hamstrafrumulínur sýndu frumurnar meiri eitrunaráhrif og stökkbreytingartíðni jókst í samanburði við sígarettureyk. Í ljósi þessara niðurstaðna velta greinahöfundar því fyrir sér hvort ekki væri rétt að merkja reykelsispakkningar með viðvörunarmerkingum, svipuðum og þeim sem settar eru á tóbaksvörur.

Rétt er að taka fram að áhrif reykelsa hafa ekki verið prófuð á mannafrumur enn sem komið er. Auk þess sem inntaka manna á reykelsisreyk er ekki á sama hátt og inntaka á sígarettureyk. Það er því ekki hægt að segja til um það hvor reykurinn er óhollari, en að öllum líkindum er hvorugur reykurinn samt heilsusamlegur og rétt er að huga að því áður en reykelsi eru brennd innandyra og þá sérstaklega innan um börn.