Rottur hafa í gegnum tíðina fengið á sig fremur neikvætt orðspor. Þær eru gjarnan sagðar skítugar auk þess að vera smitberar ýmissa sjúkdóma. Einn þessara sjúkdóma er hinn skæði svartidauði sem skók Evrópu frá 14. öld fram á þá 19. Nú telja vísindamenn að rottur hafi í raun ekki valdið því að sjúkdómurinn breiddist eins hratt út og raun ber vitni og að sökudólgarnir hafi í raun verið flær og lýs á mönnum.

Á árunum 1347 til 1351 létust um 25 milljónir manna af völdum svartadauða í Evrópu eða rúmlega þriðjungur íbúa heimsálfunnar. Út frá gögnum sem til eru um þennan fyrsta faraldur sjúkdómsins útbjuggu vísindamenn við Háskólann í Osló og Ferrara háskóla módel til að líkja eftir útbreiðslu sjúkdómsins.

Gögn um dauðsföll í níu borgum í Evrópu voru notuð til að kortleggja sjúkdóminn og voru þrjú módel útbúin. Eitt módelið byggði á því að rottur og flær og lýs á þeim hefðu verið helstu smitberarnir, annað byggði á því að sjúkdómurinn væri loftborinn og það þriðja á því að sjúkdómurinn hafi borist milli manna með flóm og lúsum á mannfóllki og fatnaði þeirra.

Í sjö af níu borgum kom í ljós að þriðja módelið passaði best við það hvernig sjúkdómurinn dreifði sér á sínum tíma. Vísindamönnunum þykir ólíklegt að sjúkdómurinn hefði dreift sér eins hratt og raun ber vitni með rottum því það hefði lengt smitleiðina.

Svartadauða er enn að finna í nútímanum, sér í lagi í Asíu, Afríku og Ameríku. Þar viðhelst sjúkdómurinn í nagdýrum sem eru svokallaðir geymsluhýslar (e. reservoirs) fyrir sjúkdóminn.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Science.