Mynd: Biology Discussion
Mynd: Biology Discussion

Getnaðarvarnir geta spilað stórt hlutverk í lífi margra en vilji fólk forðast barneignir skiptir miklu máli að nota góða getnaðarvörn. Í flestum tilfellum mæðir meira á konum en körlum að hugsa um getnaðarvarnir en helsta getnaðarvörn karla er smokkurinn. Lengi hefur getnaðarvarnarpilla fyrir karla verið í þróun en enn virðist langt í land að slíkt lyf komi á markað.

En hormónapilla eða smokkur þarf kannski ekki endilega að vera svarið fyrir karla vilji þeir geta stundað öruggt kynlíf. Fyrirtækið Parsemus Foundation hefur unnið að því í nokkur ár að þróa svokallað vasalgel eða nokkurs konar geltappa í sáðrásina. Gelið hefur nú þegar verið prófað bæði í kanínum og rhesus öpum og gefið góða raun.

Gelinu er eins og áður segir komið fyrir í sáðrásinni, sem þýðir að sáðfrumur komast ekki frá eistunum þar sem þær verða til. Sæðið sem verður til inniheldur því engar sáðfrumur og getur ekki leitt til þungunar. Sæði samanstendur ekki bara af sáðfrumum heldur einnig sáðvöka sem kemur frá blöðruhálskirtli, sáðblöðrum og klumbukirtlum. Þetta þýðir að þó sæðið innihaldi ekki sáðfrumur getur sáðlát samt sem áður átt sér stað.

Þegar gelið var prófað á bæði kanínum og öpum voru karl- og kvendýr höfð saman eftir að gelinu var komið fyrir. Aparnir stóðu af sér a.m.k. tvö fengitímabil án þess að þungun ætti sér stað. Rannsóknin þar sem kanínur voru viðfangsefnið stóð yfir í 12 mánuði án þess að þungun ætti sér stað. Báðar rannsóknir voru frekar smáar í sniðum en saman gefa þær nokkuð áreiðanlegar vísbendingar um virkni gelsins.

Enn sem komið er er ekki vitað hversu lengi gelið virkar sem getnaðarvörn en samkvæmt rannsóknum í rhesus öpum virðist gelið virkt í a.m.k. 2 ár. Þrátt fyrir góða raun í bæði kanínum og öpum á enn eftir að staðfesta sömu virkni í mannfólki. Fjölmargar rannsóknir þarf að framkvæma til að skoða bæði virkni og aukaverkanir. En á meðan við bíðum eftir frekari niðurstöðum verða karlar að láta smokkinn duga eða fara í róttækari aðgerðir eins og ófrjósemisaðgerð.