Þar sem vísindin hafa því miður ekki alltaf svör við öllu fara hættulegar mýtur gjarnan á flug um það hvernig hægt er að koma í veg fyrir eða lækna alvarlega sjúkdóma án aðkomu nútíma læknavísinda. Ein slík mýta fjallar um að krabbamein nýta kolvetni sem sinn aðalorkugjafa og því sé einföld og þægileg leið til að losa sig við slíkan vágest einfaldlega að sleppa öllum kolvetnum.

Krabbamein nýta sér skyndiorku

Það er satt að krabbamein nýta helst skjóta orku. Það er samt ekki endilega samasem merki á milli þess sem við köllum skyndiorku og það sem krabbameinsfrumur kalla skyndiorku.

Heilbrigðar frumur hafa allar innbyggt kerfi til að búa sér til orku út næringunni sem við innbyrðum. Þetta kerfi skiptist gróft í tvö stig: glýkólýsu og sítrónusýruhringinn. Þegar næringarefni koma inní frumurnar er búið að brjóta þau niður í grunneiningar næringaflokkanna. Prótín koma inn sem amínósýrur, kolvetni sem einsykrur og fita sem stakar fitusýrur.

Þessar grunneiningar fara í mismunandi nýtingu eftir því sem líkaminn þarf á að halda og sé til nóg er þeim breytt í forða, á fitu eða sykurformi. Einsykrur eru lítið notaðar í uppbyggingu, og helst fara þær strax í orkunýtingu í gegnum glýkólýsu. Lokaafurð glýkólýsunnar er pýruvat en það er einmitt upphafsefnið sem frumurnar nota í sítrónusýruhringinn. Í sítrónusýruhringnum er nánast hvert einasta efnatengi brotið í sundur svo frumurnar geti nýtt orkuna úr sameindinni.

Sítrónusýruhringurinn tekur lengri tíma og til að klára hann þarf þó nokkur ensím til að brjóta næringunar niður í sínar smæstu frumeindir. Krabbameinsfrumur hafa yfirleitt ekki tíma til að bíða eftir slíkum æfingum. Þess vegna verður oft uppsöfnun á pýruvati í krabbameinum og þau láta sér nægja að nýta bara lítið hlutfall næringarefnanna úr fæðunni.

Þessi leti krabbameinanna er líklega uppspretta mýtunnar um sykurelskandi krabbamein. Þetta segir þó ekki alla söguna því líkaminn umbreytir næringarefnum í forða svo hægt sé að nýta hann síðar, og þá oft með glýkólýsu í upphafi.

Er sykurinn hættulegur?

Að svelta krabbameinið sitt með því að sneyða framhjá öllum sykri og kolvetnum er algjörlega ofsögum sagt. En að stuðla að heilbrigðum lífsstíl með því að borða takmarkað af sykri er svo sannarlega vísa sem er aldrei of oft kveðin.

Oftar og oftar heyrum við talað um skaðsemi sykurneyslu. Samfélög vestrænna þjóða hafa nú þegar fengið sinn skerf af þeim aukaverkunum sem fylgja ofneyslu okkar. Offita, áunnin sykursýki, hjarta og æðasjúkdómar og krabbamein eru bara nokkur dæmi um þá sjúkdóma sýna hækkandi tíðni í velmegunarsamfélögum.

Ofneysla eða líkamsástand

Hvað það er sem veldur er ekki alltaf augljóst. Fylgni milli offitu og aukinnar tíðni krabbameina sýnir ekki alltaf hvert orsakasamhengið er. Fituvefur er ekki hlutlaus vefur, þ.e. hann hefur til dæmis áhrif á hormónabúskap okkar. Þar með væri hægt að benda á tengingu milli breyttrar líkamsstarfsemi og sjúkdóma.

En hvort er það sem hefur áhrif, óhófleg neysla eða sýnd hennar?  Getur jafnvel verið að það sem ýtir undir óhóflega neyslu ýti einnig undir þróun sjúkdóma?

Maíssterkja sem hvetur vöxt krabbameina

Í rannsókn sem birt var í nýjasta tölublaði Science, skoðaði rannsóknarhópur við Baylor College of Medicine hvort maíssíróp (e. high fructose corn syrup) ýtti undir myndun krabbameina, óháð líkamsþyngd. Maíssíróp er mikið notað í sæta drykki og rétti, sérstaklega á bandarískum markaði. Sírópið er unnið úr maís og er sterkjan í maísnum brotin niður í frúktósa og glúkósa sem gefur sætt bragð.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á maíssírópi sem gefa vísbendingar um að þetta háa hlutfall frúktósa geti riðlað orkuinntöku frumnanna. Það er einmitt þess vegna sem rannsóknarefnið hér var maíssírópið.

Ristilkrabbamein nýtir sér frúktósann

Til að skoða áhrif maíssíróps notaðist rannsóknarhópurinn við mýs sem eru erfðafræðilega útsettar fyrir ristilkrabbameini. Músunum var svo skipt í tvo hópa, annars vegar fengu þær sætan vökva, daglega sem samsvarar einni 350 ml gosdós hjá mönnum. Hins vegar fengu þær vatn.

Þessi aukaviðbót sem mýsnar fengu dugði þó ekki til að fita þær enda vildi hópurinn mæla hvort sykurneysla ein og sér hefði áhrif á krabbameinsvöxt, óháð virkni fituvefja.

Eftir að meðferð lauk voru æxli músanna skoðuð. Mýsnar sem höfðu fengið sætan vökva mældust með marktækt stærri æxli en þær sem höfðu verið meðhöndlaðar með vatni. Þar að auki gátu rannsakendur, með því að fylgjast með merktum efnum í sykrinum, fylgst með því hvernig stór hluti orkunnar fór beint í krabbameinsvöxtinn.

Þetta bendir til þess að krabbameinin nýti sér sérstaklega þá orku sem kemur til með maíssírópinu. Það er ekki þar með sagt að sírópið ýti undir myndun krabbameinsins, en sé það til staðar getur verið að sírópið hjálpi því að vaxa.

Ekki hægt að svelta krabbameinið

Þó þessi rannsókn gefi vísbendingar um að sykurneysla geti hjálpað krabbameinum að vaxa hraða, þá er enn of snemmt að fara í breytingar á krabbameinsmeðferðum með þetta í huga. Krabbameinsvöxtur verður ekki drepinn með lágkolvetnafæði.

Hér er um að ræða rannsókn sem er gerð á músum sem hefur verið erðabreytt þannig að þær hafa aukna tilhneigingu til að mynda ristilkrabbamein. Fyrir utan það að vera erfðabreyttar þá eru mýs líka önnur dýrategund en maðurinn. Það þarf að staðfesta þessar niðurstöðum útfrá mörgum sjónarhornum áður en farið verður að nota þær sem meðferðarúrræði.

Fæðan sem notast var við í tilrauninni var til þess fallin að herma eftir einum sykruðum drykk á dag, hjá mannfólki. Önnur samsetning fæðunnar spilar þarna líka stóra rullu og þó það sé kannski alltaf hægt að mæla með minnkuðu sykuráti þá er ekki alltaf hægt að mæla með stórkostlegum breytingum á matarræði þegar einstaklingur er nú þegar að berjast við sjúkdóm.

Allar krabbameinsmeðferðir í dag miða að því að gefa sjúklingum kost á meðhöndlun sem hafa nú þegar sannað gildi sitt.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.