Það eru ekki ný sannindi að við lifum í samlífi með milljónum örvera. Þau sannindi um hversu mikilvægar þær eru heilsu okkar eru þó tiltölulega ný af nálinni og hlutverk þeirra verða skýrari með hverjum deginum þar sem nú er unnið að fjöldanum öllum af rannsóknum á þessu sviði.

Í rannsókn sem unnin var við John Hopkins Medicine voru áhrif baktería á myndun ristilkrabbameins skoðuð. Til rannsókna voru ættgengar erfðabreytingar sem ýta undir myndun sepa í ristlinum sem getur síðar orðið að krabbameinum. Þessar ættgengu breytingar kallast familial adenomatous polyposis eða FAP og skýra þær um 5% ristilkrabbameina.

Í rannsóknum sínum komst hópurinn að því að þegar ákveðnar bakteríutegundir eru til staðar ásamt þeim erfðaþáttum sem um ræðir örvast myndun krabbameinsins. Þetta var skoðað með vefjasýnum frá sjúklingum með FAP sem létu fjarlægja vef við ristilspegun og áhrifin voru svo staðfest í músum sem voru sýktar með þessum tveimur bakteríutegundum.

Bakteríurnar sem um ræðir eru Bacteroides fragilis og Escherichia coli. Ákveðnir stofnar þessara baktería seyta frá sér efnum sem ýta undir skemmdir á erfðaefninu. Í tilfelli FAP sjúklinganna sem teknir voru fyrir í þessari rannsókn voru þessir stofnar ekki einungis hluti af örveruflórunni heldur virtust þær tvær vera ríkjandi bakteríur hennar. Þ.e.a.s. í örveruflórunni FAP sjúklinganna fundust nánast bara þessar tvær tegundir baktería. Til samanburðar telur örveruflóran sem hjá heilbrigðum einstakling hundruði tegunda.

Í dag byggist meðferð FAP sjúklinga fyrst og fremst á reglulegri ristilspeglun. En ef hægt er að staðfesta þessar niðurstöður í stærri hópi eru góðar líkur á að hægt sé að nota einhvers konar fyrirbyggjandi aðferðir til að koma í veg fyrir að Bacteroides fragilis og Escherichia coli setjist að í þörmum FAP sjúklinga. Það má gera með bólusetningum eða svokölluðum pro-biotics, innsetningu góðra baktería.

Það sannast því enn og aftur hversu mikil áhrif örverurnar hafa á okkur og forvitnilegt verður að sjá hvort fleiri krabbamein fylgi mögulega svipuðu mynstri.