Mynd: Eideard
Mynd: Eideard

Sígarettustubbar eru algengasta rusl sem finnst í sjónum um allan heim. Svo virðist vera sem einn lítill stubbur geti nú varla gert mikinn skaða í því djúpi sem hafið geymir en því miður er það mikill misskilningur. Ný rannsókn sýnir að málmar og önnur efni sem festast í sígarettufilterunum við reykingar leka útí sjóinn þegar stubburinn er þangað kominn.

Þegar sýni voru tekin úr hafi þar sem mikið magn fannst af sígarettustubbum mældist þar töluvert af málmum eins og kadmín (Cd), járni (Fe), arsenik (As) nikkel (Ni), kopar (Cu), zinki (Zn) og mangan (Mn). Mælingar voru gerðar á 9 mismuanndi stöðum meðfram Persaflóa síðastliðið sumar og voru niðurstöður mælinganna birtar í Tobacco Control nú í byrjun júlí.

Rannsóknarhópurinn bendir á að efnin sem mældust í þessari rannsókn eru tilkomin vegna þess hvernig tóbakið er ræktað og unnið. Þó hluti þess sitji eftir í filternum þá eru einnig líkur á að mjög mengað tóbak skili þessum efnum inní lungu neytenda. Þegar stubbarnir enda svo í umhverfinu okkar þá aukast líkurnar enn frekar á því að þau hafi áhrif á náttúruna og svo okkur mannfólkið til muna.

Áhrifanna mun án efa gæta á mismunandi hátt meðal mismunandi lífvera en í sumum tilfellum gætu afleiðingarnar orðið aukið þol lífvera við þungmálmum. Það sem veldur þá frekari áhyggjum er uppsöfnun þessara efna í fæðukeðjunni, en eftir því sem ofar dregur mun magn efnanna verða meira.