Mynd: Frederick M. Rossiter/Public Domain
Mynd: Frederick M. Rossiter/Public Domain

Tilfellum skarlatssóttar hefur fjölgað mikið í Bretlandi undanfarið. Ekki er vitað hvað veldur aukninguinni að svo stöddu. Sjúkdómurinn var útbreiddur á Viktoríutímanum og var þá lífshættulegur en í dag er hægt að meðhöndla hann með sýklalyfjum.

Skarlatssótt stafar af eiturefnum sem bakterían Streptococcus pyogenes losar og er sjúkdómurinn bráðsmitandi. Börn undir 10 ára aldri sem ekki hafa þróað með sér náttúrulegt ónæmi gegn eiturefnum bakteríunnar eru í sérstökum áhættuhópi og leiddi sjúkdómurinn fjölda barna til dauða áður en meðferðarúrræði komu fram á sjónarsviðið.

Lítið hefur borið á skarlatssótt undanfarna áratugi en skyndileg aukning hefur átt sér stað í tilfellum á Bretlandi á síðastliðnum árum. Sem dæmi má nefna að á tímabilinu september 2013 til mars 2014 greindust 2.830 tilfelli af skarlatssótt en á sama tímabili á árunum 2015 til 2016 voru tilfellin 6.100.

Að því er kemur fram á vefsíðu The Independent er hafa tíðni smita náð 50 ára hámarki og eru um 600 ný tilfelli tilkynnt í hverri viku.

Í dag er skarlatssót meðhöndluð með sýklalyfjum en sjúkdómurnn getur haft í för með sér fylgikvilla á borð við lungnabólgu ef hann er ekki meðhöndlaður í tæka tíð. Vegna þessa hefur foreldrum í Bretlandi verið ráðlagt að fylgjast vel með heilsu barna sinna og hafa augun opin fyrir einkennum sjúkdómsins sem eru rauð útbrot sem byrja á bringu og kvið áður en þau dreifast til annarra líkamshluta, bólgin tunga, hálsbólga, höfuðverkur og hiti.