Þó krabbamein sé samheiti yfir frumur sem fjölga sér óháð umhverfi sínu, eru gerðir krabbameina ekki bara margar heldur ótrúlega ólíkar. Af þessum ástæðum hefur reynst þrautin þyngri að finna einhverjar sameind sem hægt er að nota til að skima eftir krabbameini með inngripslitlum aðgerðum eins og blóðprufum.

Helstu skimanir sem fara fram t.d. hér á Íslandi eru myndatökur af brjóstum og lífsýnataka úr leghálsi. Slíkar skimanir eru taldar borga sig vegna þess að með skimunum aukum við líkurnar á að finna krabbameinið á fyrstu stigum, meðan auðvelt er að skera það burt og veita meðferð við því.

Flestar krabbameinsrannsóknir miða að því að læra að þekkja krabbamein nægilega vel til að búa til sérhæfða meðferð gegn þeim. En þó það sé auðvitað nauðsynlegt, er líka nauðsynlegt að beina sjónum að því hvernig hægt er að finna krabbameinin sem fyrst, svo sérhæfð meðferðarúrræði verði ekki nauðsynleg.

Vísindahópur við John Hopkins háskóla í Baltimore hefur nú birt rannsókn sína þar sem notast var við blóðsýni til að greina krabbamein. Þýði rannsóknarinnar voru rúmlega 1000 manns sem öll voru með krabbameinsgreiningu og það sem leitað var eftir í blóðprufunum þeirra voru annars vegar átta prótín og hins vegar stökkbreytingar í 16 genum.

Krabbameinssjúklingarnir í rannsókninni voru með eitt eftirtalinna átta krabbameina, brjósta-, lungna-, lifrar-, vélinda-, maga-, ristil-, eggjastokka- eða briskrabbamein. Þegar blóðsýni þeirra voru skoðuð greindust 70% sjúklinganna með krabbamein og af þeim var hægt að spá fyrir um í hvaða líffæri krabbameinið hélt sig í 63% tilfella.

Þetta var þó ekki eins fyrir öll krabbamein, en lifrarkrabbamein virtist sérlega auðvelt að mæla með blóðprufu. Það sama átti því miður ekki við um til dæmis vélindakrabbamein sem einungis hægt að mæla í 20% tilfella.

Þegar horft er á hversu langt krabbameinið var gengið hjá þessum sjúklingahópi er því miður raunin sú að þeir sem voru með fyrsta stigs krabbamein höfðu einungis 43% líkur á að fá jákvæð svör útúr blóðprufunni, en eftir því sem krabbameinið var lengra gengið jukust líkurnar og með þriðja stigs krabbamein eru líkurnar 78%.

Einn mjög góður kostur við prófið er sá að einungis 1% þeirra sem skipuðu viðmiðunarhópinn fengu falska jákvæða svörun. Með öðrum orðum, aðeins 7 af þeim 812 heilbrigðu einstaklingum sem notast var við í tilrauninni sem neikvætt viðmið, mældust samkvæmt blóðprufunni, með krabbamein sem ekki var til staðar.

Enn sem komið er, er þetta próf sem kallast CancerSEEK, að stíga sín fyrstu skref og sennilega munum við ekki sjá það notað til greininga nærri strax. Þessar niðurstöður eru þó sannarlega upphafsskrefin sem nauðsynlegt er að taka áður en haldið verður áfram. Nú liggur fyrir það verkefni að prófa skimunina í stærri hópi og mögulega á einstaklingum sem ekki er vitað hvort séu með krabbamein eða ekki.