worm

Það eru margir sem myndu vilja geta lengt líf sitt og jafnvel lifað að eilífu. Eins og er er sá kostur langt frá því að vera raunhæfur en ný rannsókn vekur veika von um að einn daginn verði það mögulegt.

Í rannsókninni tókst vísindamönnum að slökkva á þeim hluta erfðaefnis orma af tegundinni Caenorhabditis elegans sem verður til þess að ormarnir eldast. Þegar ormarnir ná kynþroska og hafa myndað kynfrumur er slökkt á álagsviðbrögðum sem hjálpa til við að halda lífsnauðsynlegum próteinum í réttri lögun auk þess að viðhalda virkni þeirra. Með því að koma í veg fyrir að slökkt væri á álagsviðbrögðunum gátu vísindamennirnir hægt á öldrun ormanna.

Niðurstöður rannsóknarinnar byggja á fyrri rannsóknum á þessu sviði og einbeittu vísindamennirnir sér að kímlínu og líkamsfrumum. Þeir hömluðu lífefnafræðilegum boðum frá kímlínunni í þeim tilgangi að tefja hrörnun líkamsfrumna. Þegar komið var í veg fyrir að slökkt væri á álgagsviðbrögðunum héldu frumurnar virkni sinni og ormurinn varð heilbrigður í lengri tíma.

Rannsóknin var framkvæmd af Richard Morimoto og Jonathan Labbadia og voru niðurstöður hennar birtar í tímaritinu Molecular Cell. Vísindamennirnir segja að það gæti verið mögulegt að nýta tæknina í öðrum dýrategundum þó það sé vissulega hægara sagt en gert í flóknum lífverum líkt og spendýrum.

Morimoto bendir á að ef hægt væri að nýta tækni sem þessa til að fólk gæti lifað heilbrigðu lífi í lengri tíma gæti það komið sér vel, ekki bara fyrir einstaklinga heldur einnig samfélagið sem heild. Fólk hefði til dæmis heilsu til að vinna mikið lengur og þyrfti síður á því að halda að fara á elliheimili.

Þó svo að enn sé langt í land að gera mönnum ekki kleift að lifa að eilífu gætu niðurstöðurnar hjálpað vísindamönnum að finna leiðir til þess að fólk geti lifað betra lífi á síðustu árum lífsins.

Tengdar fréttir:
Lind hinnar eilífu æsku fundin
Pilla við elli
Vísindamenn hægja á öldrun