Mynd: My Huynh
Mynd: My Huynh

Sterk verkjalyf á borð við morfín og kódín hafa löngum verið notuð til að meðhöndla langvarandi verki. Þessi lyf hafa þó einstaklega slæma aukaverkun, þau eru nefnilega ávanabindandi. Vegna þessa er mjög algengt að fólk sem hefur fengið ópíumskyld lyf, eins og morfín og kódín lyf, ávísuð frá lækni vegna verkja, lendi í slæmri verkjalyfjaneyslu. Nú er svo komið að í Bandaríkjunum er talað um faraldur verkjalyfjafíknar.

Þess vegna vekur það mikla lukku þegar nýjir möguleikar til verkjameðhöndlunar opnast. En það er einmitt það sem ný rannsókn, við University of Utah, leiðir í ljós.

Í rannsókninni skoðaði hópurinn Conus regius sniglategund sem finnst í Karabíska hafinu en þessi tegund seytir frá sér eitri til að drepa og éta bráð sína. Eitrið er samsett úr mörgum efnum en eitt þeirra, sem kallast RgIA, virðist bindast við viðtaka sem tekur þátt í sársauka skilaboðum líkamans. Viðtakinn sem um ræðir heitir α9α10 (í nagdýrum) og tilheyrir ekki sama ferli og ópíum lyf miða á.

Þegar efnið var prófað í nagdýrum kom einnig í ljós að þó efnið hverfi úr líkamanum á aðeins fjórum klukkustundum er sársaukinn hindraður í allt að 72 klukkustundir. Þetta bendir til þess að taugakerfið hafi einhvers konar forða af efninu svo það virkar í lengri tíma.

Næstu skref felast í því að prófa hvort efnið hefur sömu áhrif í mönnum. Einnig á eftir að skoða hvaða aukaverkanir efnið getur haft svo það er enn langur vegur áður en RgIA verður til í pilluformi og notað í stað ópíumskyldra lyfja.