diabetes

Sykursýki af týpu 1 er ævilangt ástand þar sem einstaklingar sem glíma við sjúkdóminn framleiða ekki insúlín. Þar af leiðandi þurfa þessir einstaklingar að passa sjálfir uppá blóðsykurinn og dæla insúlíni í líkamann í samræmmi við sykurmagnið sem ræðst af matar-inntöku. Þessi sjúkdómur getur því hreint út sagt verið vesen, sem betur fer er þó alltaf verið að rannsaka og þróa betri tækni sem getur auðveldað sykursjúkum lífið. Nýjasta uppfinningin í þeim efnum er snjallplástur.

Plásturinn sem var þróaður af vísindahópi við University of North Carolina og NC state, skynjar glúkósamagn í blóði og losar insúlín þegar blóðsykursmagnið fer hækkandi. Plásturinn er alsettur pínulitlum nálum sem stingast í einstaklinginn þegar plásturinn er settur á. Plásturinn geymir nokkurs konar blöðrur sem eru fullar af insúlíni. Utan á blöðrunum eru ensím sem breyta glúkósa í gluconyc sýru, svo þegar glúkósamagn hækkar safnast mikið af glúkósa í kringum blöðurnar svo mörg efnahvörf eiga sér stað. Við þessi efnahvörf breytast aðstæður í kringum blöðurnar svo þær falla saman og losa þannig um insúlínið sem þær geyma. Insúlínið sér svo til þess að glúkósinn er tekinn upp úr blóði og færður á viðeigandi staði í líkamanum.

Enn sem komið er hefur plásturinn einungis verið prófaður í músum. Sú rannsókn gaf góðar niðurstöður og góðar líkur eru á því að plásturinn muni nýtast mönnum að sama skapi. Rannsóknarhópurinn vonast til þess að geta stillt plásturinn enn betur svo losun insúlíns verði enn einstaklingsmiðaðri og taki tillit til þyngdar og hæðar sjúklinganna.

Ef fram fer sem horfir mun mörgum sparast sársaukinn og óþægindin sem fylgja sykursýkinni svo ekki sé minnst á þær aukaverkanir sem geta orðið ef einstaklingar fylgjast ekki nægilega vel með ástandi sínu.

Svipaður plástur hefur einnig verið þróaður til að nota við bólusetningar, en Hvatinn fjallaði um það í lok apríl