Mynd: Tech Times
Mynd: Tech Times

Tilgangur sólarvarna er að vernda húðina gegn bruna. Þegar sólbruni á sér stað verða miklar skemmdir á erfðaefninu og af því leiðir aukin hætta á myndun krabbameins, þess vegna er mikilvægt að nota sólarvörn til að koma í veg fyrir bruna. Hins vegar hafa einhverjar rannsóknir bent til þess að sólarvörn geti komist inn fyrir húðina og eigi þá greiða leið inní líkamann og geti valdið þar skaða. Enn eru þó áhöld um þetta í vísindaheiminum, en kannski er betra að setja öryggið á oddinn í þessum málum og reyna að velja sér sólarvörn sem minni líkur eru á að komist innfyrir húðina.

Slíkar rannsóknir hafa einmitt verið í gangi í Yale háskóla. Þar hefur hópur undir leiðsögn W. Mark Saltzman unnið að þróun sólarvarnar sem veitir vörn gegn geislum sólarinnar, þvæst ekki of auðveldlega af húðinni og það sem er mikilvægasti partur þróunarinnar, fer ekki inn fyrir húðina. Samkvæmt grein sem hópurinn fékk birta í Nature hefur þessum árangri verið náð.

Virka efnið í sólarvörninni, padimata O, er húðað aldehýð hópum. Aldehýð hóparnir bindast við ysta lag húðarinnar og eins og kom í ljós í rannsókninni halda efninu á yfirborðinu. Vegna þess að efnið hangir svona vel saman þá fer það heldur ekki inn undir húðina í gegnum hársekki eða svitaholur, sem annars væri ágætis inngangur fyrir slíkar agnir. Þegar sólarvörnin var prófuð með tilliti til þeirrar varnar sem hún veitir í sól var hún sambærileg við þá vörn sem fæst úr hefðbundnum sólarvörnum.

Sólvarvörn sem þessi er mögulega öruggasta leiðin til að verja sig gegn sólinni, þar sem minni líkur eru á að vörnin sjálf valdi skaða innan við húðina. Nú bíðum við bara spennt eftir að varan komi á markað.