Broccoli_bunches

Spergilkál er meinholt og hafa nýlegar rannsóknir sýnt fram á að það geti jafnvel minnkað einkenni slitgigtar. Ástæða þess er að spergilkál inniheldur efni sem nefnist sulforaphane sem hindrar ákveðin ensím sem eiga þátt í því að brjóta niður brjósk í liðum. Auk þess virðist efnið hindra ferli sem valda liðbólgunum sem fylgja sjúkdómnum. Magn sulforaphane er þó ekki svo mikið í spergilkáli að það sé raunhæft að borða spergilkál sem meðferð við slitgigt. Vísindamenn hafa því brugðið á það ráð að reyna að mynda efnið á rannsóknarstofu. Það er þó hægara sagt en gert því sulforaphane er mjög óstöðugt efni.

Nú gæti verið að lausn á vandamálinu sé fundin. Breska lyfjafyrirtækið Evgen Pharma hefur í samstarfi við The Royal Vererinary College (RVC) í London tekist að nýmynda stöðugt form af sulforaphane og búið til úr því lyf. Lyfið nefnist Sulforadex (SFX-01) og innheldur svipað magn af sulphoraphane í einum skammti og 2,5 kg af spergilkáli.

Búið er að prófa lyfið á músum og eru fyrstu niðurstöður jákvæðar að sögn Andrew Pitsillides, prófessors við RVC. Mýs með slitgigt sem fengu lyfið sýndu meðal annars betra jafnvægi í göngulagi og meiri hreyfigetu en viðmiðunarhópur.

Rannsóknarhópurinn er að vonum spenntur fyrir framhaldinu enda þjást milljónir manna um allann heim af slitgigt og eru helstu meðferðarúrræði verkjastillandi lyf eða liðskipti. Rannsóknir á SFX-01 eru þó enn á byrjunarstigi og þarf frekari forklínískar rannsóknir áður en hægt er að gera klínískar rannsóknir á virkni þess í mönnum.

Fréttatilkynningu The Royal Veterinary College má lesa hér.