Mynd: Skirt collection
Mynd: Skirt collection

Síðastliðin ár hafa fjölmargar rannsóknir birst sem gefa til kynna að bakteríuflóran í þörmum okkar hafi gríðarleg áhrif á holdafar okkar. Þetta þýðir að fyrir þá sem glíma við offitu eða ofþyngd gæti lausnin við því verið að bæta við ákveðnum tegundum af bakteríum eða auka fjölbreytileika þeirra. En hver er sannleikurinn á bak við hinar góðu bakteríur sem halda okkur grönnum?

Þær rannsóknir sem hafa sýnt marktækan mun á örveruflóru fólks í kjörþyngd og ofþyngd eru þó nokkrar en þýðið sem tekið er fyrir í hverri þeirra er kannski ekki sérlega stórt. Þegar vísindahópur við University of Michigan tók saman gögn úr 10 rannsóknum sem gerðar höfðu verið á fólki og notuðu upplýsingar um bakteríuflóru þeirra til að spá fyrir um holdafar einstaklinganna kom í ljós að samsetning bakteríuflórunnar gefur ekki mikið spágildi. Einsleitni bakteríuflórunnar var möguleg leið til að spá fyrir um holdafar einstaklinganna þegar öll gögn voru tekin saman en fylgnin var þó ekki marktæk.

Þetta gæti þýtt að örverur hafa nákvæmlega ekkert að gera með holdafar okkar eða, það sem er sennilega líklegra, að örveruflóran og samspil hennar við líkama okkar er miklu flóknara en svo að ein tegund bakteríu geti bjargað okkur frá offitu. Bakteríuflóra einstaklinga er svo ótrúlega fjölbreytt og mismunandi að líkurnar á því að einn orsakaþáttur hafi svona mikil áhrif á líf einstaklinga eru hálf fjarstæðukenndar.

Það má því segja að lærdómurinn sem við getum tekið frá rannsókn Sze og Schloss er hversu mikilvægt er að endurtaka rannsóknir, byggja þær upp í samræmi við rannsóknarspurninguna og setja þær rétt fram til að komast hægt og bítandi að sannleikanum. Við megum ekki vera of fljót að hoppa á auðveldustu lausnina, þó það geti verið hentugast.