diabetes-2424105_1920

Rannsóknarhópur við Tampere háskóla í Finnland hyggst hefja klínískar prófanir á bóluefni sem gæti fyrirbyggt sýkursýki I seint á næsta ári. Bóluefnið hefur þegar reynst vel í prófunum á músum.

Rannsóknir hafa bent til þess að einn þáttur í því að börn þróa með sé sykursýki I sé sýking af völdum enteróveira. Enteróveirur sýkja í sumum tilfellum insúlínmyndandi frumur í brisi og geta valdið varanlegum skaða á þeim. Bóluefnið er því þróað með það í huga að koma í veg fyrir sýkingar af völdum enteróveira en þessi flokkur veira inniheldur til dæmis sýkingar á borð við kvef, heilahimnubólgu og eyrnabólgu.

Prófanir á bólusetningum eru flóknar og þarf eðlilega að ganga í gegnum fjölmörg skref áður en þau eru sett á markað. Umrætt bóluefni hefur nú verið prófað í músum með góðum árangri. Næsta skref er að prófa bóluefnið á 30 fullorðnum manneskjum. Ef þær prófanir koma vel út fer bóluefnið í annan fasa þar sem það verður prófað á 150 börnum.

Ef allt gengur að óskum fer bóluefnið síðan í þriðja prófunarfasa þar sem athugað verður hvort það geti fyrirbyggt sykursýki I í 4.000 börnum. Sá fasi er hvað flóknastur í framkvæmd og gæti tekið um átta ár áður en hægt verður að staðfesta að bóluefnið skili tilætluðum árangri.

Bóluefnið kemur ekki til með að geta læknað þá sem nú þegar hafa greinst með sykursýki I. Aftur á móti gæti það nýst vel sem bóluefni gegn ýmsum enteróveirum þó biðin verði vafalaust löng eftir að bóluefnið komi á markað.