Mynd: Ulises Jorge/Flickr
Mynd: Ulises Jorge/Flickr

Þegar börn fæðast er auðvelt að sjá hvort um sé að ræða dreng eða stúlku. Það á þó ekki alltaf við í þorpinu Salinas í Dóminíska lýðveldinu. Þótt ótrúlegt megi virðast fæðast þar börn sem líta út eins og stúlkur við fæðingu en fá kynfæri karla þegar þau verða kynþroska – án nokkurrar aðkomu læknavísindanna.

Þetta kann að hljóma eins og lygasaga en nýverið fjallaði Michael Mosely um ástandið í BBC þáttaröðinni Countdown to Life: The Extrodinary Making of You. Aðeins um 1% drengja sem fæðast í Salinas „skipta um kyn“ á þennan hátt. Drengirnir nefnast Guevedoces sem þýðir “getnaðarlimur við 12 ára aldur”. Guevedoces börn virðast vera kvenkyns við fæðingu og eru alin upp sem stúlkur. Þetta breytist þó þegar börnin komast á kynþroskaskeiðið – eistu ganga niður og getnaðarlimur kemur í ljós.

Þegar karlkyns kynfærin hafa komið í ljós geta drengirnir lifað eðlilegu lífi sem karlmenn, þó þeir séu aðeins undir meðalstærð. Drengirnir hafa einnig rytjulegt skegg og lítinn blöðruhálskirtil en að öðru leiti er erfitt að greina þá frá öðrum karlmönnum.

Dóminíska lýðveldið er ekki einsdæmi hvað þetta varðar en dæmi eru um að það sama hafi átt sér stað í Tyrklandi og Nýju Gíneu.

Guevedoces börnin voru fyrst rannsökuð af Julianne Imperato, innkirtlasérsfræðingi við Cornell háskóla, á áttunda áratugnum. Imperato og samstarfsfólk hennar komst að því að ástæðan fyrir því að karlkyns einkenni koma svo seint fram er sú að skortur er á ensími sem nefnist 5-α-reductasi. Þegar ensímið er ekki til staðar framleiðir líkaminn ekki kynhormónið díhýdrótestosterón (DHT) sem verður til þess að karlkyns kynfæri þroskast ekki fyrr en á kynþroskaskeiðinu þegar testosterónmagn í líkamanum eykst. Fram að því líta kynfærin út fyrir að vera kynfæri kvenna, þó þau séu það ekki í raun.

Gaman er að segja frá því að rannsóknir Imperatos leiddu til þess að lyfið fínasteríð var þróað en það er nú notað af fjölda karlmanna um allann heim til að vinna gegn stækkun blöðruhálskirtils og myndun skalla hjár karlmönnum.

Heimild: ScienceAlert