neuron

Stofnfrumumeðferðir við taugahrörnunarsjúkdómum eru umdeildar vegna þess hversu mikið inngrip meðferðin er og ávinningur oft lítill eða illa skilgreindur. Miklar aukaverkanir geta fylgt stofnfrumumeðferðum, svo sem krabbameinsmyndun, sem gerir meðferðina mun hættulegri. Í dag eru möguleikar fólks á að komast í slíka meðferð bestir á Indlandi en þar er líklegast að finna lækni sem treystir sér í slíkt áhættuverkefni. En nú verður hugsanleg breyting þar á.

Rannsókn sem leidd var af Stevens Rehen á D’OR Institute for Research and Education (IDOR) og Federal University of Rio de Janeiro, í Brasilíu, var framkvæmd á músum með Parkinsson’s veiki. En hún gefur vísbendingar um að hægt sé að meðhöndla stofnfrumur með krabbameinslyfjum fyrir stofnfrumumeðferð. Meðhöndlunin með mitomycin C, sem drepur frumur í örum vexti, kemur í veg fyrir að stofnfrumurnar myndi æxli.

Við rannsóknina var músunum skipt í tvo hópa. Annar hópurinn fékk eingöngu stofnfrumumeðferð en hinn fékk stofnfrumur meðhöndlaðar með mitomycin C, þekktu krabbameinslyfi. Allar mýsnar sýndu til að byrja með aukna hreyfigetur og stjórn á hreyfingum. Eftir 3 – 7 vikur voru allar mýsnar sem fengu ómeðhöndlaðar stofnfrumur þó dauðar. Músunum sem einnig fengum mitomycin C meðhöndlun var fylgt eftir í 12 vikur og á þeim tíma kom ekki nein fram krabbameinsmyndun. Að auki var fylgst með 4 músum til 15 mánaða aldurs og engin þeirra sýndi krabbameinsmyndun né aðrar aukaverkanir af stofnfrumumeðferðinni.

Í Parkinson’s veiki vantar m.a. dópamínmyndandi frumur í taugakerfið. Vísindamennirnir mældu þess vegna einnig dópamínframeleiðslu í músunum sem voru meðhöndlaðar með stofnfrumum og í ljós kom að dópamínframleiðsla fjórfaldaðist í músunum sem fengu mitomycin C meðhöndlaðar stofnfrumur.

Við þurfum enn að bíða þolinmóð eftir stofnfrumumeðferðum gegn Parkinson’s í mönnum en þessar niðurstöður eru þó fyrstu skrefin í áframhaldandi þróun á stofnfrumumeðferðum. Rannsóknarhópurinn mun væntanlega halda áfram á þessari braut og skoða þá enn frekar hvaða þættir eru sameiginlegir milli manna og músa og hvernig hægt er að heimfæra þessar niðurstöður á menn.

Þessar niðurstöður verða birtar í apríl-tölublaði tímaritsins Frontiers in Cellular Neuroscience, en greinina má samt sem áður nálgast rafrænt hér.