nail-in-finger

Bólga er eitt af ónæmissvörum líkamans, þar sem frumur ónæmiskerfsins hópast saman til að gera við skaddaðan eða sýktan vef. Bólga kemur t.d. við sögu þegar við meiðum okkur, fáum skurð á húð eða eitthvað slíkt. Hafi bólga eitt sinn komið upp er bólgusvarið greipað í minni ónæmiskerfisins til að tryggja hröð viðbrögð næst þegar á þarf að halda.

Rannsóknarhópur við The Rockafeller University hafði áhuga á þessu minni ónæmiskerfisins þegar hann hélt uppí leiðangur um minni húðfrumna í rannsókn sinni. Rannsóknartilgáta hópsins snerist um að fyrst ónæmiskerfið hefði minningu um óhappið, gætu fleiri kerfi búið yfir sama eiginleika, til dæmis húðin.

Til að svara þessari spurningu skoðaði hópurinn hversu fljót sár á húð voru að gróa eftir að bólgusvar hafði einu sinni myndast í húð músa. Niðurstöðurnar sem birtust í Nature sýndu að eins og ónæmiskerfið, býr húðin einnig yfir ákveðnu minni. Viðbragð til viðgerða var mun sneggra eftir að bólgusvar hafði einu sinni átt sér stað í húðinni.

Minnið er geymt í vefjasérhæfðum stofnfrumum yfirhúðar. Þegar bólgusvar hefur einu sinni átt sér stað verða breytingar á erfðaefninu sem gera það að verkum að gen sem tengd eru viðgerðarferlum eru alltaf aðgengileg til umritunar. Þetta þýðir að þegar kallið kemur, sár myndast á húð og efni tengd því ferðast milli frumnanna nálægt sárinu til að láta allan vefinn vita af því hættuástandi sem hefur myndast, geta stofnfrumur vefsins strax hafist handa við að búa til nauðsynleg prótín til að loka sárinu.

Þessar niðurstöður gefa vísindahópum mun skýrari mynd af því hvaða áhrif bólgusvar ónæmiskerfisins getur haft. Það er einnig áhugavert að hugsa um þessi áhrif í ljósi þess að margir sjúkdómar koma fram sem óþörf bólgusvör, þ.e. sjálfsofnæmissjúkdómar. Margir þessara sjúkdóma sem einkennast af bólgum koma einmitt fram í húð eða í öðrum vefjum líkamans þar sem sambærilega frumusamsetningu er að finna, eins og í þörmunum.

Betri þekking á áhrifum bólgunnar munu mögulega leiða okkur í frekari skilning um hvað gerist í sjálfsónæmissjúkdómum, en það ekki alltaf skýrt hvort bólgan sé orsök eða afleiðing sjúkdómsins sem um er að ræða.