parkinsons

Þó Parkinson’s sé enn ekki að fullu skilgreindur sjúkdómum er margt sem við vitum að gerist í taugakerfi þeirra sem greinast með hann. Eitt af því sem gerist er að frumum sem eru dópamínvirkar taugafrumur, fækkar umtalsvert. Svo mikil er fækkun frumnanna að fjöldi þeirra í nýgreindum einstakling er oft ekki nema um helmingur þess sem finnst í heilbrigðum einstakling.

Virkjun og fjölgun þessara frumna getur því verið eitt af meðferðarúrræðum gegn sjúkdómnum, en það er því miður hægara sagt en gert. Vísindahópar hafa nú þegar sýnt fram á að þegar stofnfrumur eru notaðar til að búa til nýjar taugafrumur getur það haft áhrif á Parkinsons einkenni einstaklinga.

Rannsóknarhópur við Kyoto University í Japan birti á dögunum rannsókn í Nature þar sem afleiddar stofnfrumur eru notaðar í fyrsta skipti sem meðferð við Parkinson’s í öpum.

Í rannsókninni var notast við vefjasérhæfðar stofnrumur úr öpunum sem voru meðhöndlaðar til að þroskast í átt að dópamínvirkum taugafrumum. Þessum taugafrumum var svo komið fyrir í taugavef Parkinson’s veikra apa í von um að þær hefðu áhrif á framgang sjúkdómsins.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru vægast sagt ánægjulegar, en aparnir sýndu ekki bara framfarir í sjúkdómi sínum heldur er hægt að lesa úr þessari yfirgripsmiklu rannsókn hvaða þættir við slíkar frumumeðferðir skipta höfuðmáli.

Frumurnar sem notaðar voru gátu s.s. endurnýjað taugavefinn sem hafði skemmst af völdum Parkinson’s sjúkdómsins, svo aparnir sýndu aukna stjórn á hreyfingum sínum. Sem betur fer fylgdu þessu ekki auknar líkur á krabbameinsmyndun eins og stundum vill verð fylgifiskur nýrra fjölhæfna frumna inní líkamann.

Eins og áður var nefnt fann rannsóknarhópurinn hverjir eru lykilþættirnir við frumugjöfina. Aðalatriðin til að sjá almennilegar framfarir við frumu-meðferðir sem þessar eru gæði frumnanna sem notaðar eru. Frumurnar þurfa að henta ónæmiskerfi sjúklingsins einstaklega vel, en þannig aukast líkurnar á því að frumurnar nái að dafna. Það sem gildir er gæði en ekki magn, eins og margir höfðu veðjað á.

Þegar búið er að prófa meðferð sem þessa í dýrum sem líkjast mönnum jafnmikið og apar gera og meðferðin gefur góða raun eru næstu skref að skoða hvaða áhrif við getum haft á sjúkdóminn í mönnum. Þó ber alltaf að stíga varlega til jarðar og rannsóknir sem fara fram í mönnum þurfa að lúta mjög ströngum kröfum. Það þarf því að huga að mörgu og gefa sér nægan tíma áður en haldið er af stað í fjöldan allan af meðferðum við Parkinson’s. En þó má segja að við erum þó nokkrum metrum nær því að finna áhrifaríka lækningu við þessum hvimleiða sjúkdómi.