Mynd: Storypick
Mynd: Storypick

Órjósemi er ástand sem því miður of mörg pör glíma við. Í flestum tilfellum sem ófrjósemi hrjáir karla er það vegna þess að einhverra hluta vegna geta þeir ekki framleitt heilbrigðar sæðisfrumur. Þrátt fyrir að stærsti hluti karlmanna framleiði ógrynni af sæðisfrumum á hverjum degi án þess að vita af því þá er sú framleiðsla er í raun mjög flókið ferli, þar sem kímlínufrumur einstaklingsins þurfa að undirgangast margskonar breytingar sem enda í einlitna frumum með hæfileikann til að synda.

Rannsóknir á frjósemi og þar af leiðandi ófrjósemi snúast að miklu leyti um að skilgreina hvaða ferla kímlínufrumur þurfa að undurgangast til að verða að virkum kynfrumum. Nýlega birtist grein í Cell Stem Cell þar sem kínverskur rannsóknarhópur lýsir tilraunum sínum á músastofnfrumum sem þeim tókst að nota til að búa til kynfrumur.

Í upphafi rannsóknarinnar safna þau stofnfrumum úr músafóstrum og meðhöndla þær til að búa til það sem kallast kímlínufrumur. Kímlínufrumur eru vefjasérhæfðar stofnfrumur, þ.e. forverar kynfrumna, sem eiga eftir að undirgangast breytingar áður en þær verða virkar kynfrumur. Síðan notast hópurinn við hin ýmsu boðefni, þar á meðal kynhormónið testósterón til a herma eftir umhverfinu í eistunum. Að lokum stóð hópurinn uppi með einliltna kynfrumur sem þau notuðu til að frjóvga músaegg. Með þessum tilraunum urðu svo til heilbrigðir og vel að merkja frjóir músaungar.

Þetta mun vera í fyrsta skipti sem vísindahópi tekst að búa til fullþroskaðar og virkar sæðisfrumur sem geta frjóvgað egg. Með þessum rannsóknum hefur því tekist að skilgreina að stórum hluta þá ferla sem eiga sér stað þegar sáðfrumur verða til.

Það er alveg ljóst að hér hafa verið tekin stór skref í rannsóknum á frjósemi en þó er enn margt eftir. Þó þroskun frumnanna hafi tekist þá á enn eftir að skilgreina ferlið í þaula og að auki færa rannsóknirnar úr músum yfir í prímata áður en hægt verður að gera sambærilegar tilraunir í mönnum.

Áframhaldandi rannsóknir í þessum efnum munu að öllum líkindum koma ófrjóum körlum til góða en þó ber að hafa í huga að hér var notast við stofnfrumur úr heilbrigðum músum. Hvort hægt verði að gera slíkt hið sama við kímlínufrumur karla sem ekki geta myndað sáðfrumur á enn eftir að koma í ljós. Að auki eru margar siðferðisspurningar sem vakna varðandi slíkar aðgerðir, t.d. er rétt að spyrja sig hvort eiginleikinn sem veldur ófrjóseminni geti erfst frá föður til afkvæma og hvort meðferðin sé þá réttlætanleg.