Emma Wren Gibson

Emma Wren Gibson fæddist þann 25. nóvember 2017 en hafði í raun verið getin þann 14. október 1992. Emma var getin í glasafrjóvgun og var fósturvísirinn frystur en nú, rúmum 24 árum seinna er Emma komin í heiminn. Áður hafði elsti fósturvísir sem leiddi til fæðingar barns verið 20 ára.

Það sem gerir málið enn áhugaverðara er að móðir Emmu, Tina Gibson, er sjálf aðeins 25 ára og því gætu hún og dóttir hennar í raun hafa alist upp á sama tíma ef hlutirnir hefðu farið á annan veg.

Fóstuvísir Emmu hafði verið gefinn frá öðru pari og eru Emma og foreldrar hennar því ekki erfðafræðilega skyld.

Þegar fólk gengur í gegnum IVF meðferðir kemur fyrir að einhverjir fóstuvísar verði afgangs. Í þeim tilfellum geta foreldrar í Bandaríkjunum ákveðið að gefa fósturvísana fólki sem ekki getur sjálft getið barn, eins og í tilfelli foreldra Emmu eða að láta eyða fósturvísunum ef ætlunin er að nýta þá ekki.

Nýbökuðu foreldrarnir kippa sér þó ekki mikið upp við það hvernig Emma kom til heldur njóta foreldrahlutverksins líkt og sjá má á myndbrotinu hér að neðan.