Mynd: Chocolates by Grimaldi
Mynd: Chocolates by Grimaldi

Alzheimer’s er hrörnunarsjúkdómur sem leggst á miðtaugakerfið og veldur því að einstaklingar sem þjást af sjúkdómnum muna ekki hverjir þeir eru, hvar þeir eru eða hvað þeir eru að gera. Minnisleysið er ekki bara erfitt fyrir einstaklinginn sem berst við sjúkdóminn heldur einnig fyrir aðstandendur sem oft eiga í erfiðleikum með að eiga eðlileg samskipti við manneskju sem stendur þeim nærri. Vísindamenn hafa lagt mikið kapp á að skilgreina þennan hrörnunarsjúkdóm í þaula til að finna leiðir til að koma í veg fyrir hann eða lækna hann. Niðurstöður þeirra rannsókna eru heilmikil vitneskja um þennan flókna sjúkdóm, sem virðist einmitt vera mun flóknari og margslungnari en áður var talið.

Eitt af þeim merkjum sem notað er til að mæla ágengi Alzheimer’s í sjúklingum er magn Amyloid Beta 40 (Abeta40) í blóði. Ástæða þess að þetta tiltekna prótín er mælt er sú að amyloid útfellingar í heila eru algengari meðal Alzheimer’s sjúklinga en annarra og tengjast þessar útfellingar sjúkdómnum. Þegar Abeta40 minnkar í blóði gefur það því vísbendingu um að meira af amyloid prótínum er að setjast fyrir í heilanum. Það var nákvæmlega þetta prótín sem rannsóknarhópur við Georgetown University nýtti sér í rannsókn sinni á áhrifum resveratrol, efni sem finnst í bæði súkkulaði og rauðvíni, á framgang Alzheimer’s.

Í rannsókninni var 119 manns sem tiltölulega nýlega höfður greinst með Alzheimer’s skipt í tvo hópa. Annar hópurinn fékk lyfleysu og hinn fékk 0,5 – 2,0 grömm af resveratrol daglega í eitt ár. Magn Abeta40 í blóði þátttakenda var mælt og í ljós kom að í blóði þeirra sem fengu resveratrol stóð magn Abeta40 í stað. Það sama var ekki að segja um viðmiðunarhópinn. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að efnið, sem virtist ekki hafa neikvæð áhrif á sjúklinga og hefur líklegast virkni í miðtaugakerfinu, geti hægt á framgangi Alzheimer’s í sjúklingum.

Ekki er þó allt sem sýnist því þó resveratrol finnist bæði í súkkulaði og berjum og þar af leiðandi rauðvíni er magnið sem tilraunahópurinn fékk á dag samsvarandi á við það magn sem fengist úr 1000 vínflöskum. Svipaða sögu er að segja um súkkulaðið. Enn á eftir að skilgreina hver virkni efnisins er nákvæmlega og í hvaða skömmtum er rétt að nota það til meðhöndlunar. En þetta eru fyrstu skrefin til að senda resveratrol í frekari lyfjarannsóknir og prófanir, sem vonandi gefa góða raun og leiða mögulega til betri batahorfa fyrir Alzheimer’s sjúklinga.